Miðvörðurinn öflugi Damir Muminovic er nokkuð óvænt búinn að semja við Grindavík í Lengjudeildinni.
Damir er 35 ára gamall og kom aftur til landsins um mitt sumar eftir dvöl í malasísku deildinni með DPMM frá Brúneí.
Hann var mikilvægur hlekkur í sterku liði Breiðabliks í tíu ár, eftir að hafa alist upp hjá HK, og lék með liðinu nýliðið sumar.
28.11.2025 16:57
Damir og Hjörvar í Grindavík (Staðfest)
„Ég er virkilega ánægður með ákvörðunina sem ég tók, bæði fyrir sjálfan mig og fyrir klúbbinn," sagði Damir í viðtali við Fótbolta.net eftir undirskriftina. Hann gat valið á milli nokkurra félaga og segir að það hafi verið auðvelt að velja Grindavík.
„Klúbburinn seldi mér hugmyndina af verkefninu hérna sem hentar mér mjög vel og er virkilega spennandi."
Grindavík æfir í Reykjavík þessa dagana en markmiðið er að æfa og spila í Grindavík.
Damir verður í leiðtogahlutverki hjá ungu liði Grindvíkinga en hann er samningsbundinn Breiðabliki út árið og mun skipta um félag eftir áramót.
„Maður er alltaf með sín persónulegu markmið en klúbburinn er með það markmið að koma sér aftur á rétta braut og fá fólkið hérna í bænum með sér í lið. Ég deili þessu markmiði með klúbbnum."
Athugasemdir























