Markvörðurinn Hjörvar Daði Arnarsson skrifaði undir samning við Grindavík í dag og svaraði spurningum frá Fótbolta.net eftir undirskriftina.
Hjörvar Daði var varamarkvörður hjá ÍBV í ár eftir að hafa verið aðalmarkvörður er Vestmanneyingar unnu Lengjudeildina í fyrra.
„Það var einhver áhugi frá öðrum félögum en eftir stutt spjall við Ray (Anthony) og Sigga (Óla Þorleifsson) formann var ég sannfærður um að koma hingað. Þetta var ekki erfið ákvörðun, þetta snýst um að hér fæ ég traustið og fæ að spila fótbolta. Ég hlakka mikið til að spila aftur," sagði Hjörvar við undirskriftina.
Hjörvar er 25 ára gamall en er þó einn af eldri leikmönnum Grindavíkurliðsins og hann veit að því fylgir mikil ábyrgð.
Grindavík rétt bjargaði sér frá falli úr Lengjudeildinni á síðustu leiktíð og er Hjörvar spenntur fyrir verkefninu sem er framundan.
„Mér líst vel á að koma hingað og það heillar mig að þeir séu komnir aftur til Grindavíkur. Mig langar að hjálpa þeim að komast aftur í sama stand og áður en þetta gerðist allt (með eldgosið). Þeir ætla sér stóra hluti og ég er ánægður að vera partur af því. Markmiðið er að fara upp í Bestu deildina."
28.11.2025 16:57
Damir og Hjörvar í Grindavík (Staðfest)
Athugasemdir



























