Ray Anthony Jónsson nýráðinn þjálfari Grindavíkur svaraði spurningum frá Fótbolta.net eftir að Damir Muminovic og Hjörvar Daði Arnarsson skrifuðu undir samninga við félagið í dag.
Hann er mjög ánægður með að fá tvo öfluga leikmenn í hópinn til að hjálpa ungu strákum liðsins að vaxa og dafna.
„Damir er búinn að spila einhverja 300 leiki í efstu deild og 50 leiki í Evrópukeppni, þetta er 'winner'. Mér líst mjög vel á hann og eins með Hjörvar líka sem var í stóru hlutverki með ÍBV í fyrra," sagði Ray kátur. En hvernig tókst Grindvíkingum að sannfæra Damir um að semja ekki við félag í Bestu deildinni?
„Við spjölluðum aðeins við hann (Damir) og honum fannst verkefnið greinilega spennandi sem við erum að fara í. Hópurinn verður flottur, við erum ungir á æfingum eins og er en við eigum eftir að styrkja okkur betur.
„Það voru margir leikmenn á lánssamningum og það verða því einhverjar breytingar á liðinu. Jafnframt ætlum við að virkja ungu strákana sem komu inná eða byrjuðu einhverja leiki á síðustu leiktíð og sjá hvernig það gengur."
Ray vonast eftir að Grindavík muni kynna fleiri nýja menn til leiks á næstu dögum eftir að liðið var í fallbaráttu síðasta sumar. Ray er ekki tilbúinn til að tala um markmið næsta árs fyrr en nær dregur, en ljóst er að Grindvíkingar stefna hátt.
28.11.2025 16:57
Damir og Hjörvar í Grindavík (Staðfest)
Athugasemdir






















