Englandsmeistarar Liverpool eru úr leik í enska deildabikarnum eftir tap á heimavelli gegn Crystal Palace. Þetta er þriðja innbyrðisviðureignin þar sem Palace hefur betur gegn Liverpool á þremur mánuðum.
Arne Slot skipti út öllu byrjunarliðinu og mætti til leiks gegn Palace með unglinga á varamannabekknum til að gefa vanalegum byrjunarliðsmönnum frí.
Varamenn Liverpool réðu þó ekki við bikarmeistara Crystal Palace sem gerðu einnig breytingar á sínu liði á milli leikja. Oliver Glasner gerði þó færri breytingar og voru lærisveinar hans sterkari aðilinn.
Ismaila Sarr skoraði bæði mörk leiksins á lokamínútum fyrri hálfleiks. Fyrra markið kom eftir klaufagang í varnarleik Liverpool þar sem boltinn datt fyrir Sarr sem skoraði gott mark, fjórum mínútum áður en Sarr tvöfaldaði forystuna eftir laglegt samspil við Yeremy Pino.
Heimamenn sköpuðu sér voðalega lítið í leiknum og virtist sigur Palace aldrei í hættu. Hinn átján ára gamli Amara Nallo fékk beint rautt spjald á 79. mínútu og innsiglaði Pino sigur Palace á lokakaflanum, svo lokatölur urðu 0-3.
Varamenn Arsenal sigruðu á sama tíma heimaleik gegn Brighton þar sem staðan var markalaus í leikhlé.
Ungt lið Arsenal mætti grimmt til leiks út í síðari hálfleikinn og var allt annar bragur á leiknum. Ethan Nwaneri skoraði eftir frábæra sókn þar sem Mikel Merino átti laglega hælsendingu áður en Myles Lewis-Skelly kom boltanum á Nwaneri sem skoraði. Hægt er að setja spurningarmerki við Jason Steele í markinu sem var með fingurgómana í boltanum og hefði mögulega átt að verja.
Mikel Arteta skipti stóru byssunum inná um miðbik seinni hálfleiks og tvöfaldaði Bukayo Saka forystuna á 76. mínútu. Meira var ekki skorað svo lokatölur urðu 2-0.
Wolves tók á sama tíma á móti Chelsea í öðrum úrvalsdeildarslag og gerði Enzo Maresca mikið af breytingum frá helginni, þar sem Josh Acheampong er eini leikmaðurinn sem hélt byrjunarliðssætinu.
Ungstirni Chelsea áttu frábæran fyrri hálfleik og leiddu með þriggja marka mun í leikhlé eftir mörk frá Andrey Santos, Tyrique George og Estevao. Santos átti einnig stoðsendingu á meðan Jamie Binoe-Gittens lagði tvö upp.
Hlutirnir breyttust í síðari hálfleik og komust Úlfarnir aftur inn í leikinn með tveimur mörkum áður en Liam Delap, sem kom inn af bekknum, fékk tvö gul spjöld og var rekinn af velli.
Gittens skoraði þó fjórða mark Chelsea þrátt fyrir að vera leikmanni færri og tókst Úlfunum aftur að minnka muninn til að gera lokamínúturnar spennandi, en nær komust þeir ekki. Niðurstaðan 3-4 sigur Chelsea á útivelli.
Að lokum lenti Manchester City undir gegn Swansea en Jeremy Doku tókst að jafna fyrir leikhlé.
Í síðari hálfleiknum skoraði Rayan Cherki og lagði upp fyrir Omar Marmoush til að fullkomna endurkomu Man City og urðu lokatölur 1-3.
Liverpool 0 - 3 Crystal Palace
0-1 Ismaila Sarr ('41 )
0-2 Ismaila Sarr ('45 )
0-3 Yeremi Pino ('87 )
Rautt spjald: Amara Nallo, Liverpool ('79)
Arsenal 2 - 0 Brighton
1-0 Ethan Nwaneri ('58 )
2-0 Bukayo Saka ('76 )
Wolves 3 - 4 Chelsea
0-1 Andrey Santos ('5 )
0-2 Tyrique George ('15 )
0-3 Estevao ('41 )
1-3 Tolu Arokodare ('48 )
2-3 David Wolfe ('73 )
2-4 Jamie Gittens ('89 )
3-4 David Wolfe ('90 )
Rautt spjald: Liam Delap, Chelsea ('86)
Swansea 1 - 3 Manchester City
1-0 Goncalo Franco ('12 )
1-1 Jeremy Doku ('39 )
1-2 Omar Marmoush ('77 )
1-3 Rayan Cherki ('90 )
Athugasemdir


