Arne Slot þjálfari Liverpool svaraði spurningum eftir 0-3 tap á heimavelli gegn Crystal Palace er liðin mættust í 16-liða úrslitum enska deildabikarsins fyrr í kvöld.
Liverpool hefur ekki átt góðu gengi að fagna upp á síðkastið og telja sparkspekingar að það sé að hitna undir þjálfarasæti Slot hjá félaginu.
Slot var gagnrýndur fyrir að mæta í leikinn gegn Palace án allra lykilmanna liðsins, þar sem varamenn og leikmenn úr unglingaliðinu mættu til leiks á Anfield.
„Fólk getur verið með sínar eigin skoðanir á liðsvalinu hjá mér en raunveruleikinn er sá að við erum bara með 15 eða 16 leikmenn úr aðalliðinu til taks þessa dagana. Við erum með smærri hóp en fólk gerir sér grein fyrir, við erum með 20 leikmenn í aðalliðinu og 4 meiðsli," sagði Slot til að verja liðsvalið sitt.
„Þrátt fyrir þetta þá erum við ekki að standa okkur nægilega vel, það er ekki sæmandi fyrir Liverpool að tapa svona mörgum leikjum á svona stuttum tíma eins og er að gerast hjá okkur núna.
„Fólk heldur að við séum með rosa breiðan hóp eftir allar fréttirnar um hvað við keyptum dýra leikmenn yfir sumarið, en það er bara rangt. Ég er til dæmis aðeins með einn liðtækan hægri bakvörð sem stendur, Conor Bradley, og hann getur ekki spilað tvo leiki á þremur dögum útaf meiðslahættu.
„Það er risastór vika framundan fyrir okkur og ég gat ekki verið að taka áhættur með lykilmenn sem eru nú þegar að glíma við alltof mikið leikjaálag.
„Ef einhver lykilmaður hefði spilað og meiðst hjá okkur gegn Palace þá hefði fólk verið snöggt að gagnrýna mig fyrir að taka heimskulega ákvörðun."
Slot benti líka á að aðallið Liverpool hefur tapað tvisvar áður gegn Palace hingað til á tímabilinu og þá voru lykilmennirnir inná.
„Það hefði verið alltof mikil áhætta að rúlla áfram á sömu mönnum."
Liverpool á leiki gegn Aston Villa, Real Madrid og Manchester City fyrir næsta landsleikjahlé.
29.10.2025 21:42
Enski deildabikarinn: Liverpool steinlá á Anfield
Athugasemdir


