Síðustu leikjum kvöldsins er lokið hjá Íslendingunum sem leika erlendis. Þar skoraði Breki Baldursson er Esbjerg komst áfram í næstu umferð danska bikarsins.
Breki byrjaði á bekknum í viðureign Esbjerg gegn Randers og kom inn af bekknum í framlengingunni þegar staðan var ennþá markalaus.
Gestirnir í liði Randers voru sterkari aðilinn og gerðu heimamenn í Esbjerg vel að halda út og knýja fram vítaspyrnukeppni. Þar klúðraði fyrsti spyrnumaður heimamanna af vítapunktinum og steig Breki næstur á punktinn. Hann skoraði og skoruðu allir liðsfélagar hans sem skutu á eftir honum.
Esbjerg vann vítakeppnina 4-2 og fer áfram í næstu umferð.
Daníel Leó Grétarsson og Kristall Máni Ingason eru þá dottnir úr leik eftir að Sönderjyske tapaði gegn sterku liði AGF. Daníel og Kristall byrjuðu á bekknum en komu báðir inn í seinni hálfleik.
Daníel fékk að spila rúmar 20 mínútur á meðan Kristall fékk síðustu 10 mínúturnar í 2-1 tapi.
Í efstu deild í Noregi byrjaði Eggert Aron Guðmundsson á miðjunni í tapleik Brann á heimavelli gegn Bodö/Glimt í toppbaráttunni. Sævar Atli Magnússon var ekki með vegna meiðsla.
Eggert Aron spilaði fyrstu 84 mínútur leiksins í 1-2 tapi þrátt fyrir yfirburði heimamanna sem voru sterkari aðilinn stærsta hluta leiksins.
Lærlingar Freys Alexanderssonar eru í þriðja sæti eftir þetta tap og svo gott sem búnir að missa af toppsætunum tveimur. Núna þurfa þeir að tryggja sér þriðja sætið til að fá þátttökurétt í forkeppni Evrópudeildarinnar á næstu leiktíð.
Stefán Ingi Sigurðarson kom inn af bekknum er Sandefjord náði 1-1 jafntefli við Rosenborg með jöfnunarmarki seint í uppbótartíma.
Sandefjord siglir lygnan sjó í fimmta sæti norsku deildarinnar, með þremur stigum meira en Rosenborg.
Í skoska boltanum fékk Tómas Bent Magnússon að spila síðustu mínúturnar er topplið Hearts missteig sig gegn St. Mirren.
Hearts lenti undir í tvígang en náði að jafna svo lokatölur urðu 2-2. Liðið er með sex stiga forystu á toppi skosku deildarinnar eftir sigur gegn Celtic um helgina, með 26 stig eftir 10 umferðir.
Kjartan Már Kjartansson var ónotaður varamaður í sigri Aberdeen gegn Kilmarnock. Þetta var kærkominn sigur fyrir Aberdeen sem á 10 stig eftir 10 umferðir, alveg eins og Kilmarnock.
Davíð Kristján Ólafsson lék allan leikinn í 3-0 tapi hjá Cracovia í pólska bikarnum og þá var Bjarki Steinn Bjarkason ónotaður varamaður í 3-0 sigri Venezia í Serie B á Ítalíu.
Feneyingar eru í umspilssæti eftir sigurinn, með 16 stig eftir 10 umferðir.
Esbjerg 0 - 0 Randers
4-2 í vítaspyrnukeppni
Aarhus 2 - 1 Sönderjyske
Brann 1 - 2 Bodö/Glimt
Rosenborg 1 - 1 Sandefjord
St. Mirren 2 - 2 Hearts
Kilmarnock 0 - 1 Aberdeen
Rakow 3 - 0 Cracovia
Venezia 3 - 0 Sudtirol
Athugasemdir



