,,Of lengi hefur fókusinn verið á að vinna titla strax"
'Óskari tókst svo að stilla spennustigið hárrétt á lokasprettinum þegar leikmönnum fannst þeir hefðu engu að tapa og allt að vinna'
Magnús Orri Schram, formaður fótboltadeildar KR, sagði við Fótbolta.net um miðjan síðasta mánuði, þegar staðan hjá KR var erfið, að fall væri ekki það versta í heimi. Ummælin vöktu hörð viðbrögð og var formaðurinn gagnrýndur fyrir þau.
Liðið hafði tapað 0-7 gegn Víkingi á heimavelli deginum áður. KR var í fallhættu það sem eftir lifði móts en liðið hélt sætinu í Bestu deildinni með 1-5 útisigri á Vestra í lokaumferðinni, en það var úrslitaleikur fyrir bæði lið.
Fótbolti.net ræddi við formanninn og var hann spurður út í ummælin.
Liðið hafði tapað 0-7 gegn Víkingi á heimavelli deginum áður. KR var í fallhættu það sem eftir lifði móts en liðið hélt sætinu í Bestu deildinni með 1-5 útisigri á Vestra í lokaumferðinni, en það var úrslitaleikur fyrir bæði lið.
Fótbolti.net ræddi við formanninn og var hann spurður út í ummælin.
Sérðu eftir þeim?
„Á þeim tímapunkti taldi ég mikilvægt að auka ekki frekar á spennustigið í Vesturbænum. Staða mála hafði lagst þungt á félagið og liðið, og mörgum leið eins og þeir bæru byrðar heimsins á herðum sér. Óskari tókst svo að stilla spennustigið hárrétt á lokasprettinum þegar leikmönnum fannst þeir hefðu engu að tapa og allt að vinna. Það var mjög vel gert," segir Magnús Orri.
„Þá er mikilvægt að skoða ummælin í því samhengi að við KR-ingar erum núna að reyna að horfa til lengri tíma en áður. Of lengi hefur fókusinn verið á að vinna titla strax, hvað sem það kostar. Þessi hugmyndafræði var inngróin í félagið okkar og má líklega rekja til þess tíma þegar sigursælasta félag landsins varð ekki Íslandsmeistari í 30 ár - frá 1968 til 1999. Svo fór okkur að ganga betur og þá vildum við vinna á hverju ári. Þetta hafði í för með sér að aðstaðan sat eftir, barna- og unglingastarfið var ekki jafn öflugt og við vildum, og kvennaknattspyrnan fór í gegnum erfiðan tíma."
„Síðustu fimm árin hefur svo bilið á milli okkar og þeirra bestu heldur breikkað - hjá karla- og kvennaliðunum okkar. Með tilkomu breytinga á Evrópukeppnum og meiri fjármuna til þeirra sem komast þar áfram er ljóst að KR verður að aðlaga sig að nýjum veruleika. Það var því ljóst að við þurftum að breyta um kúrs. Horfa til langs tíma, byggja upp sjálfbæra nálgun og sinna betur öllum þáttum starfsins; barna- og unglingastarfinu, kvenna- og karlaboltanum. Áhersla á árangur til skamms tíma hjá strákunum, verður að fara saman við langtímasýn og uppbyggingu um allt félagið. Í því samhengi verður að rýna mín ummæli."
„Þessi breyting er að mínu mati að skila sér - við höfum til langs tíma ekki átt jafn marga landsliðsmenn í yngri flokkunum, kvennaboltinn er á góðri leið í sínum uppbyggingarfasa og svo sjáum við stuðninginn við strákana vera gríðarlegan í allt sumar, þrátt fyrir að sigurleikirnir hafi ekki verið nógu margir. Fólk mætir og styður sitt lið þrátt fyrir allt saman. Þannig er andinn í Vesturbænum allt annar en oft áður. Við erum að horfa til langstíma og ég get fullyrt að gamla góða KR verður fljótt aftur komið á sínar kunnuglegu slóðir – að berjast um alla titla sem í boði eru - bæði hjá körlum og konum," segir formaðurinn.
Athugasemdir



