fös 30. október 2020 18:24
Magnús Már Einarsson
Rúnar Kristins: Vonbrigði að komast ekki í Evrópukeppni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, segir það vonbrigði að liðið hafi ekki náð Evrópusæti fyrir næsta tímabil. KR var í 5. sæti í Pepsi Max-deildinni og átti leik til góða gegn Stjörnunni þegar leik var hætt í byrjun október vegna kórónuveirunnar. KR var einnig komið í undanúrslit Mjólkurbikarsins.

KSÍ tilkynnti í dag að keppni sé lokið á bæði Íslandsmótinu og í Mjólkurbikarnum vegna kórónuveiru faraldursins.

„Það eru vonbrigði fyrir okkur að vera ekki í Evrópukeppni," sagði Rúnar við Fótbolta.net í kvöld þegar hann heyrði fréttirnar.

„Þetta er ekki gott fyrir okkur og ekki gaman. Markmið okkar númer eitt var að komast í Evrópukeppni," bætti Rúnar við en hann vildi lítið tjá sig um ákvörðun KSÍ að svo stöddu.

„Ég veit ekki hversu mikið KSÍ hefur leitað að því að fá undanþágur og ég vil ekki segja of mikið of núna þegar maður er bara rétt búinn að heyra þetta."
Athugasemdir
banner
banner