þri 30. nóvember 2021 20:01
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Guðrún komið sterk inn í landsliðið - „Það er alltaf heiður"
Icelandair
Guðrún skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í dag.
Guðrún skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Guðrún Arnardóttir skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í dag þegar Ísland vann 4-0 sigur gegn Kýpur í undankeppni HM.

Guðrún hefur komið sterk inn í landsliðið og spilað mjög vel við hlið Glódísar Perlu Viggósdóttur í hjarta varnarinnar. Guðrún leikur með Rosengård, besta liðinu í Svíþjóð.

„Við vorum með yfirhöndina allan tímann, en mér fannst við samt ekki vera með gæðin í því sem við vorum að gera - eins og við ætluðum okkur. Við getum gert miklu betur, en við vorum samt alveg með tök á leiknum og náðum inn fjórum mörkum. Við tókum þrjú stig eins og við ætluðum okkur," sagði Guðrún á fréttamannafundi eftir leik.

„Við vorum mikið með boltann, en við vorum ekki að skapa okkur mikið af færum. Við hefðum viljað gera betur. Það hefði verið gaman að skora fleiri mörk, en mikilvægast er að taka stigin þrjú."

Guðrún segir það mikinn heiður að spila fyrir íslenska landsliðið. „Það er alltaf heiður og það er rosalega gott að fá tækifærið. Það er mikil samkeppni í liðinu og alls ekki gefið að fá að spila. Ég er ánægð þegar ég fæ tækifærið og reyni að nýta það vel hverju sinni," sagði Guðrún.

Um markið sem hún skoraði, sagði hún: „Við sögðum Karó að setja hann á markið. Svo vorum við tilbúnar í frákastinu. Það datt svona skemmtilega fyrir mig."

Hún var spurð hvort hún væri ánægð með frammistöðuna í þeim leikjum sem hún hefur spilað. „Í dag hefði ég viljað gera aðeins betur. Mér fannst ég ekki alveg vera að gera eins vel og ég get gert. En það var mikilvægt að ná þessum þremur stigum þótt við getum allar gert betur."

Næsta ár verður spennandi þar sem liðið mun taka þátt í EM og halda áfram að reyna að komast á HM. Guðrún mun einnig reyna að hjálpa Rosengård að verja titilinn í Svíþjóð.

„Það er gríðarlega spennandi. Við erum spenntar fyrir EM. Við tökum fyrsta nokkra æfingaleiki og leiki í undankeppni HM. Svo tekur EM við, sem ég held að við og íslenska þjóðin séum spennt fyrir. Svo er ég með Rosengård áfram og við ætlum okkur að halda titlinum í Malmö," sagði Guðrún.

„Næsta ár er bullandi spenna og gleði framundan."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner