Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 31. mars 2021 23:09
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arnar: Fyrsti fjórðungur búinn og við erum 1-0 undir
Icelandair
Arnar heilsar upp á Sebastian Boxleitner, fyrrum styrktarþjálfara Íslands, að leik loknum.
Arnar heilsar upp á Sebastian Boxleitner, fyrrum styrktarþjálfara Íslands, að leik loknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þjálfarateymið okkar.
Þjálfarateymið okkar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, sat fyrir svörum á blaðamannafundi á Teams í kvöld, eftir sinn fyrsta sigurleik sem landsliðsþjálfari Íslands.

Ísland hafði betur Liechtenstein, 4-1, á útivelli í undankeppni HM 2022.

„Það er mjög mikill léttir. Við fórum inn í gluggann með það markmið að ná í sex stig. Það voru svekkelsi og vonbrigði að stýra leiknum í Armeníu ekki í sigur," sagði Arnar.

„Ég sagði strax eftir þann leik að þessi riðill verður rosalega skrýtinn og liðin munu taka stig af hvort öðru. Það kom í ljós, eins og við vissum, að í Armeníu eru ekki leikmenn sem eru nýbyrjaðir í fótbolta, þetta er bara gott lið með mikið sjálfstraust."

„Það var mjög mikilvægt að klára þennan leik í dag og sigla þessum stigum í hús. Við vorum með yfirburði frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og við vorum ánægðir með það."

Hann var spurður að því hvort það hefðu ekki verið ákveðin vonbrigði að vinna ekki stærra miðað við hvernig leikurinn spilaðist.

„Jú, ég hefði kannski viljað fara inn í hálfleikinn með stærra forskot. Við áttum mörg færi í fyrri hálfleiknum og möguleika á síðustu sendingunni. Þetta var einstefna frá mínútu eitt og það er jákvætt að liðið okkar geti verið með yfirburði gegn Liechtenstein í 90 mínútur. Ég er ekki að kvarta yfir niðurstöðunni; 4-1 eða 6-1, við fáum þrjú stig."

Næstu leikir í undankeppninni eru ekki fyrr en í september en þá spilar Ísland á heimavelli í fyrsta sinn. Í millitíðinni eru æfingaleikir í sumar.

„Við vonum að við getum notað júnígluggann í að koma okkar gildum aðeins betur inn. Það sem hefur verið erfitt í þessum glugga er að við höfum átt fjórar æfingar þar sem við höfum getað gert eitthvað að viti," sagði Arnar og bætti við:

„Við veljum besta hópinn og besta liðið fyrir hvert verkefni og hver staðan verður í september, það er ómögulegt fyrir mig um að spá það núna."

Það eru þrír gluggar eftir í þessari undankeppni, fyrsti fjórðungur er búinn. Staðan í riðlinum er mjög áhugaverð.

„Þegar ég leikgreini leikinn við Armeníu er það mjög einfaldlega 50/50 leikur sem gat fallið báðum megin. Við vorum meira með boltann, við vorum með meira xG og einvígin voru okkur í vil. Sá leikur hefði getað fallið hvorum megin sem er eða í jafntefli. Það er akkúrat það sem er að gerast í þessum riðli og það mun halda áfram," sagði Arnar og að lokum sagði hann:

„Við erum búnir með fyrsta fjórðung. Þetta er eins og í körfunni; fyrsti fjórðungur er búinn og við erum 1-0 undir. Við þurfum að sjá til þess að í september, október og nóvember að við náum að jafna og komast yfir, og halda okkar möguleikum lifandi í riðlinum."

Staðan í riðlinum:
1. Armenía 9 stig
2. Norður-Makedónía 6 stig
3. Þýskaland 6 stig
4. Rúmenía 3 stig
5. Ísland 3 stig
6. Liechtenstein 0 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner