„Ég er mjög svekktur. Þetta var mjög lokaður leikur, lítið um færi hjá báðum liðum og þeir skora frambært mark úr kyrrstöðu fyrir utan teig og setja hann upp í samskeyti og það var munurinn á liðunum í dag." sagði Vigfús Arnar Jósefsson þjálfari Leiknis eftir tapið gegn Aftureldingu á Domusnovavellinum í kvöld
Lestu um leikinn: Leiknir R. 0 - 1 Afturelding
„Við settum hann í slánna í seinni hálfleik og fengum svo annað gott færi eftir það og boltinn fór ekki inn hjá okkur en inn hjá þeim annars var leikurinn mjög lokaður."
„Bæði lið geta spilað betur, völlurinn náttúrulega mjög blautur og svolítið þungur, þetta var svolítið taktískur leikur, bæði lið vildu vinna og þetta féll þeirra megin í dag. Það var gríðarlega þungt högg að fá þetta mark á sig afþví við vorum búnir að vera verja markið okkar vel fram að því."
Í stöðunni 0-0 í kvöld fékk Leiknis aukaspyrnu fyrir utan teig þar sem Sindri Björnsson setti boltann í slánna og niður og er lítið að falla með Leiknismönnum fyrstu fjórar umferðir deildarinnar
,,Það er bara því miður þannig, við erum bæði sjálfum okkur verstir og síðan falla hlutirnir ekki alveg með okkur. Fyrir ári síðan vorum við í nákvæmlega sömu málum og þekkjum þessar aðstæður mjög vel, vitum alveg nákvæmlega hvað við þurfum að gera til að breyta henni þannig það er bara undir okkur komið að gera það og við erum sem betur fer að spila strax aftur á Miðvikudaginn við Keflavík, við höfum þá tækifæri til að gera betur og vinna þá."