Stuðningsmaður Manchester United í Úganda var myrtur í heimalandinu um helgina eftir að hafa lent í rifrildi við stuðningsmann Arsenal í verslunarmiðstöðinni Kyobugombe í Kaharo-sýslu í Kabale.
Benjamin Okollo hét stuðningsmaðurinn og var 22 ára gamall, en hann var að horfa á leik Arsenal og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.
Hann lenti þar í deilum við stuðningsmann Arsenal yfir leiknum og fagnaði síðan ákaflega þegar Mohamed Salah jafnaði metin undir lok leiks.
Einnig kemur fram í miðlum í Úganda að Okollo hafi kastað poppkorni í Arsenal-manninn sem hafi reitt hann enn frekar til reiði.
Stuttu eftir leikinn hófust slagsmál með þeim afleiðingum að Arsenal-maðurinn, Onan, barði Okollo með spýtu þar til hann féll til jarðar.
Okollo var fluttur á spítala en lést af sárum sínum stuttu eftir komuna.
Lögreglan hefur leitað að Onan síðustu daga en án árangurs.
Athugasemdir