„Þetta var alveg frábært," segir Helgi Sigurðsson, leikmaður Víkings, sem vann nýliðaslaginn gegn Þór í kvöld 2-0. Hann segir að liðið hafi þurft að hafa mikið fyrir sigrinum.
„Við vissum að það lið sem myndi hafa yfir í baráttunni myndi vinna þennan leik," segir Helgi sem skoraði fyrra markið í leiknum.
„Þetta var stórglæsilegt mark, góður snúningur og svo endaði þetta á táara. Það var mikið stress í báðum liðum og það róaði okkur að ná fyrsta markinu."
„Við vorum lengi að komast inn í þetta en eftir tuttugu mínútur þá fannst mér við koma betur inn í leikinn. Eftir það var þetta bara fram og til baka. Engin falleg knattspyrna kannski en það er ekki við því að búast í fyrstu umferð."
Víkingum er af flestum spáð botnbaráttu í sumar. Hefur Helgi trú á að liðið geti endað ofar?
„Kemur ekki bara út ný spá á morgun eftir þennan leik? Nei nei okkur er alveg sama um hvað aðrir spá okkur. Það eina sem skiptir okkur máli er hvað við höfum trú á. Við höfum trú á þessu verkefni og þetta hleypir okkur vel af stað," segir Helgi Sigurðsson.
Í sjónvarpinu að ofan má sjá viðtalið við Helga í heild sinni.