Elías Rafn Ólafsson, markvörður Midtjylland og íslenska landsliðsins, varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net í 4-2 sigri liðsins á Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í dag.
Markið kom á 32. mínútu er Julius Lorents Nielsen reyndi hálfgerða fyrirgjöf sem fór klaufalega af Elíasi og í netið.
Sem betur fer kom það ekki að sök. Midtjylland svaraði þessu vel og tókst á endanum að vinna 4-2 sigur.
Liðið er í 2. sæti dönsku deildarinnar með 12 stig.
Nafni hans, Elías Már Ómarsson, var á meðan með stoðsendingu er Meizhou Hakka gerði 2-2 jafntefli við Zhejiang Professional í kínversku úrvalsdeildinni.
Meizhou Hakka er í 13. sæti með 27 stig.
Kristian Nökkvi Hlynsson spilaði allan leikinn með Twente sem vann 2-1 útisigur á Heerenveen. Kristian átti frábæran leik og einn af þeim bestu með 7,8 í einkunn hjá FotMob.
Fyrsti sigurinn kominn og Twente nú með 3 stig í 10. sæti eftir þrjá leiki.
Jón Dagur Þorsteinsson átti flottan leik í markalausu jafntefli Herthu Berlín gerði Darmstadt í þýsku B-deildinni. Í raun var hann besti maður Herthu á FlashScore með 7,6 í einkunn. Hertha er í næst neðsta sæti með 2 stig eftir þrjá leiki.
Brynjar Ingi Bjarnason kom inn af bekknum í hálfleik er Greuther Furth tapaði fyrir Holsten Kiel, 2-0, á heimavelli. Greuther er í 13. sæti með 3 stig.
Mikael Neville Anderson var með bestu mönnum Djurgården í 1-0 sigri liðsins á Brommapojkarna í sænsku úrvalsdeildinni. Hann fær 7,4 á FlashScore.
Hlynur Freyr Karlsson var ónotaður varamaður hjá Brommapojkarna. Djurgården er í 8. sæti með 31 stig en Brommapojkarna í sætinu fyrir neðan með 23 stig.
Davíð Kristján Ólafsson byrjaði hjá Cracovia sem gerði markalaust jafntefli við Piast Gliwice í pólsku úrvalsdeildinni. Cracovia er í 3. sæti með 11 stig.
Athugasemdir