Newcastle býr sig undir nýtt tilboð frá Liverpool - Úlfarnir vilja Strand Larsen - Everton hefur áhuga á Ake
banner
   fös 22. ágúst 2025 22:32
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Setja spurningamerki við margt hjá Val - „Gjörsamlega skitu upp á bak"
Úr leiknum í kvöld
Úr leiknum í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Patrick Pedersen fór meiddur af velli
Patrick Pedersen fór meiddur af velli
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Valur var sigurstranglegri aðilinn í úrslitaleik Mjólkurbikarsins í kvöld þegar liðið mætti Vestra enda búið að vera eitt besta lið landsins í sumar. Vestri gerði sér hins vegar lítið fyrir og vann sinn fyrsta bikartitil í sögunni.

Valur varð fyrir áfalli því Patrick Pedersen meiddist illa í leiknum og verður líklega lengi frá. Albert Brynjar Ingason og Gunnar Birgisson voru sérfræðingar á RÚV yfir leiknum og þeir gagnrýndu upplegg Vals.

Lestu um leikinn: Valur 0 -  1 Vestri

„Dagurinn hefði varla getað farið verr því þeirra allra besti leikmaður er líklega frá út tímabilið. Þetta er blýþungt fyrir Valsara sem mér þótti vera hugmyndasnauðir í seinni hálfleik," sagði Gunnar.

Albert gagnrýndi Marius Lundemo sem átti mjög erfitt uppdráttar á miðjunni hjá Val.

„Þeir voru mjög slakir í seinni hálfleik, mjög hægt. Lundemo spilaði allar 90 mínúturnar, ég skil það ekki. Tryggvi var hörmulegur í þessum leik. Adam Ægir kom ekki með mikið af bekknum. Svo kemur Aron Jóhannsson inn á fyrir Skoglund sem ég skildi enganvegin af hverju Lúkas Logi kom ekki inn," sagði Albert.

„Taktu meiri sénsa. Af hverju spilar Lundemo 90 mínútur? Af hverju kemur Lúkas Logi ekki með Aroni inn á. Þeir voru óheppnir að skora ekki í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik var þetta bara lélegt."

Þeir hrósuðu Vestra mikið en þeim tókst að loka vel á Val eftir að þeir komust yfir.

„Andstæðingurinn er eins góður og þú leyfir honum að vera. Vestramenn voru með svör við öllu sem Valsararnir buðu upp á," sagði Gunnar

„Valur er búið að sækja alla þessa pósta til að vinna eitthvað. Hafa ekki unnið síðan 2020 og þeir hafa sótt risapósta síðan þá. Voru í dauðafæri í kvöld og gjörsamlega skitu upp á bak," sagði Albert.

Valur er á toppnum í Bestu deildinni og voru að margra mati líklegastir til að vinna Íslandsmeistaratitilinn en Albert og Gunnar segja að meiðsli Patrick Pedersen setji stórt strik í reikninginn.

„Það er ekki hægt að segja það þegar besti leikmaðurinn þarf frá að hverfa. Eins og staðan er núna þá er erfitt að tippa á það að Valur verði Íslandsmeistari," sagði Gunnar.

„Þetta leit virkilega illa út með Pedersen, ef hann er frá út tímabilið er erfitt að tippa á að Valur verði Íslandsmeistari. Einn sigur í síðustu leikjum, vondur leikur á móti ÍBV í síðasta leik. Mér fannst Túfa klúðra þessu með byrjunarliðinu í kvöld, að þora ekki að keyra meira á þetta. Vera með sókndjarfan bakvörð allavega öðru megin," sagði Albert.

„Mér fannst vanta einhverskonar svör frá Val í kvöld. Ég held að flestir hafi hugsað það sama, það vantaði meiri þrýsting á öftustu þrjá hjá Vestra mönnum sem höfðu það alltof náðugt. Fyrirgjafirnar voru ekki að virka," sagði Gunnar.

„Auðvitað þurfa leikmenn að taka þetta eitthvað til sín. Nakkim er nýkominn til baka úr meiðslum og Lundemo hefur ekki byrjað leik lengi. Það datt rosalega mikill taktur úr liðinu þegar þeir seldu Tómas Bent og Orra Hrafn. Það sem var að virka var hlaupageta í kringum Kidda, þeir fara aftur til baka í svolítið þunga miðju. Það þarf að skoða alla vinkla, ákvarðanataka stjórnarinnar að selja leikmenn og enginn inn í staðinn. Svo líka liðsvalið, Tryggvi sést ekki, Jónatan á að gera betur. Auðvitað riðlast þetta til þegar Pedersen fer af velli. Á pappírnum á Valsliðið að vinna þennan leik," sagði Albert.
Athugasemdir
banner