
Vestri er Mjólkurbikarmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir frábæran sigur í úrslitaleik á Laugardalsvelli í kvöld.
Ágúst Eðvald Hlynsson fékk gullið tækifæri til að koma Vestra yfir snemma leiks. Boltinn datt fyrir Ágúst eftir vandræðagang í vörn Vals, hann komst framhjá Frederik Schram en skaut í hliðarnetið úr þröngu færi.
Stuttu síðar átti Patrick Pedersen góðan skalla að marki Vestra en Guy Smit varði frábærlega frá honum.
Vestri náði forystunni á 24. mínútu þegar Jeppe Pedersen, yngri bróðir Patrick Pedersen, skoraði stórkostlegt mark með skoti fyrir utan teiginn.
Valur sótti hart að marki Vestra en Guy Smit átti frábæran leik í markinu og sá til þess að Vestri var yfir í hálfleik.
Valur varð fyrir miklu áfalli eftir klukkutíma leik þegar Patrick Pedersen þurfti að fara af velli. Hann var sárþjáður og virtist hafa slitið hásin.
Vestri var nálægt því að bæta við marki þegar Hólmar Örn Eyjólfsson átti slaka sendingu til baka. Vladimir Tufegdzic komst í boltann en Frederik náði að loka á hann.
Þegar skammt var til loka venjulegs leiktíma lenti Vestri í vandræðum. Guy Smit hélt boltanum inn á eftir skalla frá Gustav Kjeldsen til baka. Tryggvi Hrafn Haraldsson komst í boltann og var kominn í góða stöðu en Kjeldsen mætti á síðustu stundu og bjargaði því að Tryggvi skoraði auðvelt mark.
Leikurinn fór fram nánast allan tímann undir lokin við vítateig Vestra en Vestramenn voru sterkir í varnarleiknum og komu öllu frá. Vestri er því Mjólkurbikarmeistari árið 2025 og vann bikarmeistaratitilinn í fyrsta sinn í sögu félagsins.
Þá er ljóst að Vestri muni spila í Evrópukeppni á næsta tímabili. Stórkostlegur árangur hjá liðinu.
Athugasemdir