Nuno Espirito Santo, stjóri Nottingham Forest, segist vilja vera áfram stjóri liðsins á tímabilinu þrátt fyrir orðróma síðustu daga um að hann gæti verið á förum.
Ensku miðlarnir segja samband Nuno og Evangelos Marinakis, eiganda Forest, vera komið á endastöð.
Stjórinn sagði á dögunum að samband hans við Marinakis væri ekki eins gott og það var á síðustu leiktíð. „Þar sem er reykur, er eldur,“ sagði Nuno sem gaf sterklega til kynna að hann væri þarna að undirbúa stuðningsmenn fyrir það óhjákvæmilega.
Það var annar bragur á honum í viðtali við Sky fyrir leik Forest gegn Crystal Palace í dag, en hann segir ekkert til í sögusögnum síðustu daga.
„Það er algert kjaftæði og bara ekkert til í þessu. Við erum einbeittir á þennan leik sem er töluvert mikilvægari,“ sagði Nuno við Sky.
Hann vill ólmur halda starfi sínu og að nú þurfi hann að ræða við Marinakis og Edu, yfirmann fótboltamála hjá félaginu.
„Auðvitað vil ég halda áfram. Við þurfum að ræða saman og það er nákvæmlega það sem við munum gera en ekki í dag því eigum leik, en bráðlega.“
„Það eru engar spekúleringar. Það sem þarf að gerast er að við þurfum að ræða saman um hvernig við ætlum að hátta síðustu dögum gluggans, nálgast nýtt tímabil og hvernig best sé að undirbúa strákanna okkar,“ sagði Nuno.
Brendan Rodgers, Jose Mourinho og Ange Postecoglou hafa allir verið orðaðir við stöðuna hjá Forest.
Athugasemdir