Newcastle býr sig undir nýtt tilboð frá Liverpool - Úlfarnir vilja Strand Larsen - Everton hefur áhuga á Ake
   fös 22. ágúst 2025 21:04
Haraldur Örn Haraldsson
Einkunnir í bikarúrslitunum - Smit hreint út sagt stórkostlegur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Vestri fór með frækinn 1-0 sigur gegn Val í úrslitaleik Mjólkurbikarsins í kvöld. Jeppe Pedersen skoraði eina mark leiksins með þrumufleyg fyrir utan teig, og Guy Smit átti stórleik í markinu.


Valur

Frederik Schram - 5

Hafði lítið að gera og gat lítið gert í markinu.

Orri Sigurður Ómarsson - 5

Var á köflum fínn fram á við með góðar fyrirgjafir, en það kom lítið úr þeim.

Hólmar Örn Eyjólfsson - 3

Gaf Vestra tvisvar næstum mark, en var heppinn að færin nýttust ekki. Einbeitingarmistök hjá honum, sem hefðu getað klárað leikinn fyrir Vestra.

Markus Lund Nakkim - 5

Hafði lítið að gera varnarlega, hann átti tvo góða skalla sóknarlega en Smit varði frá honum stórkostlega.

Bjarni Mark Duffield - 4 (64)

Kom lítið frá honum sóknarlega og gaf eina, og eina feilsendingu. Skiljanlegt að honum var fórnað þegar Valur þurfti að reyna að sækja mark.

Kristinn Freyr Sigurðsson - 5 (85)

Sást voða lítið til Kidda, maðurinn sem á að vera einn mest skapandi maður Valsara, var ekki að skila því hlutverki nógu vel í dag.

Marius Lundemo - 5

Ekki mjög skapandi leikmaður, en varnarhlutverk hans var ekki þarft lengi vel í þessum leik. 

Albin Skoglund - 6 (77)

Orkumesti leikmaður Vals í leiknum. Átti mikið af flottum hlaupum og kom sér í færi en náði ekki að nýta sér þau.

Jónatan Ingi Jónsson - 6

Átti nokkra flotta takta og bjó til færi. Mögulega hættulegasti leikmaður Vals fram á við.

Patrick Pedersen - 5 (64)

Fer út af með vond meiðsli, leit út eins og hann hafi jafnvel slitið eitthvað. Fram að því hafði lítið sést til hans.

Tryggvi Hrafn Haraldsson - 3

Kom ekkert frá Tryggva í þessum leik. Nokkrar ágætar hornspyrnur, en úr opnum leik voru Vestra menn með hann á lás.

Varamenn:

Adam Ægir Pálsson (64) 5

Sigurður Egill Lárusson (64) 5

Aron Jóhannsson (77) spilaði ekki nóg

Lúkas Logi Heimisson (85) spilaði ekki nóg

Vestri

Guy Smit - 9 Maður leiksins

Átti fullt af vörslum, og sumar af þeim alveg hreint stórkostlegar. Valsarar héldu örugglega að þeir væru búnir að skora úr allavega 2-3 færum, en Smit varði.

Thibang Phete - 7

Var öflugur í vörninni, tók nokkra góða skallabolta. Var hluti af heild varnarlega sem var eins og óbrjótanlegur múrveggur.

Eiður Aron Sigurbjörnsson - 7

Stóð vaktina eins og herforingi í miðri vörninni. Það segir mikið að Patrick Pedersen sást lítið áður en hann fór af velli.

Gustav Kjeldsen - 8

Bestur af miðvörðunum í kvöld, átti ótal marga skalla frá marki, og tæklingar sem björguðu Vestra mönnum.

Gunnar Jónas Hauksson - 7 (97)

Tryggvi Hrafn sem sótti upp kantinn hans í þessum leik, gat voða lítið gert í kvöld. Það er vegna þess að Gunnar sá til þess að hann gæti ekkert komist á skotfótinn.

Jeppe Pedersen - 8

Skoraði stórkostlegt mark, með þrumufleyg fyrir utan teig. Var svo gríðarlega öflugur á miðjunni.

Fatai Gbadamosi - 8

Var í algjöru varnarhlutverki í kvöld, og gerði það vel. Hlífði vörninni, Kristinn Freyr og Albin Skoglund áttu erfitt með að komast í gegnum hann.

Anton Kralj - 8

Fékk það erfiða verkefni að eiga við Jónatan Inga, og þrátt fyrir að Valsarinn hafi spilað vel, tókst honum alltaf á endanum að stöðva það sem hann bjó til. Var einnig einn af betri sóknarmönnum Vestra þegar þeir fóru fram.

Ágúst Eðvald Hlynsson - 7

Skilaði orkumikilli frammistöðu þar sem hann þurfti að verjast mikið. Gerði sitt besta í að keyra boltann upp þegar hann fékk hann, en það reyndist oft erfitt þegar hann var einn á auðum sjó.

Vladimir Tufegdzic - 7

Kom lítið úr honum sóknarlega, enda láu Valsmenn á Vestra mest allan leikinn. Hann gerði samt vel í að djöflast einn upp á topp. Gaf Vestra oft mikilvægar hvíldar sekúndur með því að vera hamast í varnarmönnum Vals.

Diego Montiel - 7 (97)

Átti nokkra spræka spretti fram á við og góðar sendingar, en eins og restin af framlínunni skilaði hann virkilega góðri varnarvinnu. 

Varamenn:

Morthen Olsen Hansen (72) 6

Guðmundur Arnar Svavarsson (87) spilaði ekki nóg

Emmanuel Duah (87) spilaði ekki nóg

Johannes Selven (97) spilaði ekki nóg

Elmar Atli Garðarson (97)

Dómari - Sigurður Hjörtur Þrastarson: 7

Línan hans í spjöldum fannst mér of hörkuleg. Full lítið sem þurfti að gera til að fá spjald í bikarúrslitum. Annars var hann með lítið af „röngum" dómum.


Athugasemdir
banner