Leikmaður 11. umferðar: Gary Martin (ÍA)
,,Ég er ánægður með að kveðja á sigri og kveðja liðið þegar það er með jafnmörg stig og liðið í 4. sæti. Það er gott að liðið sé í góðri stöðu í deildinni, það eru frábærir strákar í liðinu og það hefur verið heiður að spila með þeim," segir Gary Martin leikmaður 11. umferðar í Pepsi-deildinni hér á Fótbolta.net.
Gary lék í gær kveðjuleik sinn með Skagamönnum en hann lagði upp tvö mörk og var frábær í 4-0 sigri á Selfyssingum. Gary er á leið til KR en hann segir ekki hafa verið skrýtið að spila leikinn í gær vitandi það að það væri síðasti leikurinn með skagamönnum.
,,Ég hélt höfði eins og vanalega og var með sama undirbúning og fyrir hvern leik. Ég hugsaði kannski aðeins meira, til að mynda hugsaði ég um að þetta gæti verið í síðasta skipti sem ég færi í ÍA treyjuna og svoleiðis en ég einbeitti mér algjörlega að því að ná þremur stigum."
Gary hefur lengi verið orðaður við KR en hefur honum alltaf dreymt um að ganga í raðir Vesturbæinga?
,,Mér hefur ekki alltaf dreymt um það," sagði Gary hlægjandi og bætti við: ,,Við vitum hversu góðir þeir eru en markmið mitt var bara að spila vel fyrir Akranes og sjá hvað myndi gerast og síðan kom þetta tækifæri."
Gary segist ekki þekkja leikmenn KR sérstaklega. ,,Ég sá Óskar og Viktor í myndatökunni sem við fórum í en þess fyrir utan þekki ég engan af þeim persónulega."
KR-ingar eru á toppnum í Pepsi-deildinni og Gary vonast til að verða meistari með liðinu.
,,Auðvitað, þeir eru í toppsætinu og þeirra markmið er að berjast um titilinn á hverju ári. Ég sé því ekkert annað svar við þessari spurningu," sagði Gary léttur í bragði.
Gary kom til ÍA um mitt sumar 2010 og hefur því verið hjá félaginu í tvö ár. Þessi 21 árs gamli Englendingur segist eiga eftir að sakna ÍA en hins vegar er hann ánægður með að flytja frá Akranesi.
,,Ég mun sakna félagsins og stuðningsmannanna en ég mun ekki sakna bæjarins svo mikið. Þetta er yndislegur bær en hann er ekki fyrir mig. Ég á nokkra vini á Akranesi og ég mun sakna þeirra sem og strákana í liðinu. Það hefur verið heiður að spila með þeim og ég á góðar minningar."
,,Þetta er frábært félag með frábæra aðstöðu. Það hafa komið frábærir leikmenn upp hjá félaginu og núna eru leikmenn eins og Andri Adolphsson og Hallur (Flosason) að koma upp og þeir gætu orðið frábærir ef þeir halda áfram á þessari braut," sagði Gary að lokum.
Sjá einnig:
Leikmaður 9. umferðar - Atli Guðnason (FH)
Leikmaður 8. umferðar - Kristinn Jónsson (Breiðablik)
Leikmaður 7. umferðar - Christian Olsen (ÍBV)
Leikmaður 6. umferðar - Atli Guðnason (FH)
Leikmaður 5. umferðar - Sam Tillen (Fram)
Leikmaður 4. umferðar - Kennie Chopart (Stjarnan)
Leikmaður 3. umferðar - Kjartan Henry Finnbogason (KR)
Leikmaður 2. umferðar - Frans Elvarsson (Keflavík)
Leikmaður 1. umferðar - Ingólfur Þórarinsson (Selfoss)
Athugasemdir