Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   þri 31. júlí 2012 13:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í 13. umferð: Gary sýndi á sér alveg nýja hlið
Leikmaður 13. umferðar: Bjarni Guðjónsson (KR)
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
,,Þetta var einn af okkar betri leikjum og þá sérstaklega fyrri hálfleikurinn. Skagamenn voru töluvert sterkari í síðari hálfleik en við áttum samt töluvert betri færi en þeir þar og það var svekkjandi að bæta ekki við marki," sagði Bjarni Guðjónsson miðjumaður KR við Fótbolta.net í dag en hann er leikmaður 13. umferðar eftir frammistöðu sína í 2-0 sigrinum á ÍA í gær.

Bjarni er uppalinn hjá ÍA og í gær átti hann í höggi við Jóhannes Karl Guðjónsson bróður sinn og fyrirliða skagamanna.

,,Það er í sjálfu sér ekkert öðruvísi fyrir mig að spila á móti ÍA eða einhverju öðru liði. Þó að Jói sé í Skagaliðinu og ég sé fæddur og uppalinn á Akranesi þá er ég KR-ingur núna og vil vinna alla leiki með KR. Fjölskylduböndin milli okkar Jóa hverfa þegar leikurinn byrjar en svo eru þau jafn sterk eftir leik og þau voru fyrir leik."

Lendir ekki mikið í átökum við Jóa Kalla:
Þetta var þriðji leikurinn í sumar sem Bjarni og Jóhannes Karl eigast við í en KR hefur haft betur í tveimur þeirra.

,,Það er gaman að spila á móti góðum leikmönnum og Jói er góður þannig að það þarf að hafa mikið fyrir því að spila á móti honum. Við sitjum báðir aftarlega á miðjunni og lendum ekki mikið í átökum. Það hefur kannski komið 3-4 sinnum fyrir í þessum leikjum að ég hef náð að setja öxlina í hann eða eitthvað svoleiðis," sagði Bjarni sem var ekki að nudda Jóhannesi upp úr tapinu í gærkvöldi.

,,Alls ekki. Ég var alveg brjálaður þegar við töpuðum uppi á skaga og talaði eiginlega ekkert við hann eftir þann leik. Það fauk aðeins í hann í gær en síðan töluðum við saman í gærkvöldi."

Ánægðir með Gary Martin:
Gary Martin mætti einnig sínum gömlu félögum í ÍA í gær en Þórður Þórðarson þjálfari Skagamanna sagði eftir leiki í gær að enski framherijnn hefði ekkert getað í leiknum.

,,Ég get ekki tekið undir það án þess að ég ætli að tjá mig um það sem Þórður hefur verið að segja. Við erum búnir að vera ánægðir með Gary frá því að hann kom í KR. Hann er búinn að æfa rosalega vel og þetta er duglegur strákur sem leggur sig allan fram," sagði Bjarni um Gary Martin.

,,Hann sýndi síðan á sér alveg nýja hlið í gær þegar hann var kominn í mjög gott færi og í stað þess að skjóta lagði hann boltann á samherja sinn Kjartan sem skoraði í autt markið. Ég er ekki viss um að hann hefði gert þetta ef hann hefði verið í hinu liðinu í gær. Það er mjög gott að fá hann inn í hópinn hjá okkur."

Jónas skemmtilegur karakter:
Auk Gary Martin þá hafa KR-ingar fengið liðsstyrk í Jónasi Guðna Sævarssyni sem er kominn heim úr atvinnumennsku.

,,Þegar Jónas Guðni fór úr KR var hann einn af sterkustu karakterunum í liðinu. Fyrir utan fótboltalega getu þá kemur Jónas með góðan og skemmtilegan karakter í búningsklefann og það er aldrei nóg af svoleiðis mönnum."

KR-ingar mæta Grindavík í undanúrslitum Borgunarbikarsins á fimmtudagskvöld og liðið stefnir á að leika sama leik í fyrra og verða bæði Íslands og bikarmeistari.

,,Við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að fara í bikarúrslitaleikinn og halda stöðu okkar í deildinni. Við erum í efsta sæti núna og ætlum að reyna að halda því eins lengi og við getum," sagði Bjarni að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 12. umferðar - Steven Lennon (Fram)
Leikmaður 11. umferðar - Atli Guðnason (FH)
Leikmaður 9. umferðar - Atli Guðnason (FH)
Leikmaður 8. umferðar - Kristinn Jónsson (Breiðablik)
Leikmaður 7. umferðar - Christian Olsen (ÍBV)
Leikmaður 6. umferðar - Atli Guðnason (FH)
Leikmaður 5. umferðar - Sam Tillen (Fram)
Leikmaður 4. umferðar - Kennie Chopart (Stjarnan)
Leikmaður 3. umferðar - Kjartan Henry Finnbogason (KR)
Leikmaður 2. umferðar - Frans Elvarsson (Keflavík)
Leikmaður 1. umferðar - Ingólfur Þórarinsson (Selfoss)
Athugasemdir
banner
banner
banner