Leikmaður 3. umferðar - Aron Elís Þrándarson (Víkingur R.)
,,Það er skemmtilegt að fá smá viðurkenningu fyrir leikinn," segir Aron Elís Þrándarson leikmaður Víkings R. en hann er leikmaður 3. umferðar í 1. deild karla að mati Fótbolta.net. Aron skoraði þrennu í 5-2 sigri Víkings á Fjölni síðastliðið föstudagskvöld.
,,Ég bjóst nú ekki við 5-2 sigri, ég verð að viðurkenna það. Við náðum ekki að sigra Selfoss á heimavelli í síðustu umferð sem voru gríðarleg vonbrigði þannig að við þurftum að vinna þennan leik til að halda okkur í toppbaráttunni."
Aron, sem leikur framarlega á miðjunni, skoraði eitt mark á síðasta tímabili en hann bætti um betur í leiknum á föstudag.
,,Ég hef aldrei skorað þrennu í meistaraflokki. Meiðsli settu strik í reikninginn í fyrra og ég vona að ég nái að setja fleiri mörk í sumar. Ég er að komast í mitt besta form núna."
Gamla kempan Hjörtur Júlíus Hjartarson skoraði hin tvö mörk Víkings í leiknum á föstudag. ,,Hann skorar mikið af mörkum. Það er ekki mikil yfirferð á honum en hann skilur fótbolta vel og það er þægilegt að spila með honum."
Ólafur Þórðarson þjálfar Víking R. en Milos Milojevic er honum til aðstoðar. Hann hefur einnig þjálfað Aron í yngri flokkum Víkings.
,,Þeir ná mjög vel saman. Óli er grjótharður og er búinn að gera góða hluti í vetur. Ég er mjög hrifinn af Milos líka, hann er mjög góður þjálfari og er búinn að gera góða hluti."
Víkingur er með sex stig eftir þrjár umferðir í fyrstu deildinni og liðið stefnir á að komast upp í Pepsi-deildina.
,,Við ætlum okkur að fara upp en það verður erfitt. Það eru fjögur lið með sex stig á toppnum og allir geta unnið alla eins og sást um helgina þegar KF vann KA 4-1. Við eigum KF í næsta leik í deildinni og við verðum að mæta klárir í þann leik," sagði Aron en áður en Víkingur mætir KF mun liðið leika við KV í Borgunarbikarnum á miðvikudag.
,,Það verður mjög erfiður leikur. KV eru sterkir og við megum ekki vanmeta þá, þeir tóku Fjölni í síðustu umferð í bikarnum," sagði Aron að lokum.
Sjá einnig:
Leikmaður 2 umferðar - Alen Sutej (Grindavík)
Leikmaður 1. umferðar - Ásgeir Þór Ingólfsson (Haukar)
Athugasemdir