Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
Enski boltinn - Stór frumraun, Púlarar í skýjunum og meistarar í dimmum dal
Útvarpsþátturinn - Ísland, fréttaflóð úr Bestu og Viktor Örn
Fótbolta nördinn - 16 liða úrslit: Fylkir vs MBL
Innkastið - Eigum að gera okkur vonir um HM 2026
Tveggja Turna Tal - Nik Chamberlain
Útvarpsþátturinn - Máni fer um víðan völl
Frá Akranesi til Gana: Fer aftur með fótboltabúnað fyrir jólin
Fótbolta nördinn - 16 liða úrslit: Víkingur vs Íþróttavikan
Hugarburðarbolti GW12 Man City tapaði fjórða leiknum í röð!
Enski boltinn - Liverpool er bara besta lið Evrópu
Tveggja Turna Tal - Jóhann Birnir Guðmundsson
Útvarpsþátturinn - Kári Árna, Evrópuvelgengni Víkings og landsliðið
Fékk traustið áfram og gerði KA að bikarmeisturum
Fótbolta nördinn - 16 liða úrslit: Breiðablik vs Þungavigtin
Hugarburðarbolti - Liverpool aftur á toppinn!
Enski boltinn - Liverpool á toppnum og velkominn Amorim
Rólegi stríðsmaðurinn sem aldrei vék frá Stjörnunni
Tveggja Turna Tal - Haraldur Árni Hróðmarsson
Útvarpsþátturinn - Besta, Valur og Amorim tekur við
Halldór Árnason - Íslandsmeistari í fyrstu tilraun
   mán 31. mars 2014 13:10
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Upptaka - Ingólfur Sigurðsson um glímuna við geðsjúkdóm
„Allt í einu sökk maður í dimman djúpan dal"
Ingólfur Sigurðsson, leikmaður Þróttar.
Ingólfur Sigurðsson, leikmaður Þróttar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingólfur í unglingalandsleik árið 2008.
Ingólfur í unglingalandsleik árið 2008.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingólfur lék þrjá leiki með KR í Pepsi-deildinni 2009 og skoraði eitt mark.
Ingólfur lék þrjá leiki með KR í Pepsi-deildinni 2009 og skoraði eitt mark.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Ingólfur í leik með Val.
Ingólfur í leik með Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingólfur er ánægður í herbúðum Þróttar.
Ingólfur er ánægður í herbúðum Þróttar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingólfur Sigurðsson mætti í kaffispjall.
Ingólfur Sigurðsson mætti í kaffispjall.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Ingólfur Sigurðsson, fótboltamaður í Þrótti, var í opinskáu viðtali við Morgunblaðið fyrir rúmri viku. Þar steig hann fram og sagði frá glímu sinni við geðsjúkdóm. Ingólfur hefur verið með kvíðaröskun sem hefur haft mikil áhrif á líf hans og fótboltaferilinn.

Ingólfur var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu á laugardaginn og var fyrst spurður að því hvers vegna hann ákvað að stíga fram með sögu sína.

„Mér hefur boðist þetta áður. Svo fór ég að vinna sem blaðamaður og þótti það ekki passa að ég væri sjálfur í viðtölum í blöðum. Svo kom þetta aftur til og ég ákvað að ræða málin og slá til," segir Ingólfur.

„Vonandi kemur þetta til með að opna smá umræðu. Það var kannski aðal hugsunin í þessu. Þetta verður kannski einhverjum til góðs og einhverjir geta lært af. Þá er ég að tala um knattspyrnusamfélagið í heild."

Var ekki að fara fram úr rúminu
„Ég hef alltaf fundið fyrir kvíða, alveg frá því að ég var barn. Flestir þekkja það að vera kvíðnir af og til. Síðan á unglingsárum þá veikist ég í raun og veru, bæði líkamlega og andlega. Ég var heltekinn af kvíða og var það veikur að ég var ekki að fara neitt fram úr rúminu. Þá er ég fjórtán ára," segir Ingólfur sem vakti athygli fyrir fótboltahæfileika sína mjög ungur og var á þessum tímapunkti hjá hollenska félaginu Heerenveen.

„Við tekur brottför til Íslands að nýju þar sem ég heimsæki geðlækna og sálfræðinga. Þá er ég greindur með þennan sjúkdóm, kvíðaröskun. Foreldrar mínir höfðu verið hræddir um að þetta væru geðhvörf sem ég væri að þróa með mér. Þegar mér leið illa fór ég frekar hátt og reyndi að hylma yfir þessa vanlíðan."

„Frá því að ég var greindur hef ég verið að vinna í mínum málum. Ég fékk ýmisleg líkamleg einkenni eins og svima, ógleði og óraunveruleikatilfinningu. Ég hélt lengi vel að það væri eitthvað að mér líkamlega og því var fínt að fá greiningu svo maður gæti tæklað það sem var að hrjá mann."

„Ég er barn, nýorðinn unglingur. Þegar svona mikil veikindi koma upp þá var fínt að fara heim til Íslands, vera í sínu umhverfi og fá þá hjálp sem þurfti."

Kann að tækla þetta betur
Ingólfur spilaði með Val sem barn en gekk í raðir KR þegar hann kom heim aftur og gekk vel í boltanum.

„Því miður var það þannig að unglingastarfið hjá Val var ekki upp á marga fiska. Það voru fáir iðkendur og hverfið gamalt. Ég fór í KR og það var ansi gaman að vera þar. Á þessum aldri var þetta mikið upp og niður, kom í hæðum og lægðum. Ég var nokkuð vel stemmdur en það komu kaflar þar sem ég var veikur en með árunum hef ég náð að tækla þetta betur og verið með svör við þessum veikindum."

„Ég tel mig vera með þau vopn á hendi í dag að geta tæklað þetta hugarfarslega. Ég gjörþekki sjálfan mig eftir allt þetta og er búinn að ræða oft við sálfræðinga. Ég hitti sálfræðinga enn í dag af og til. Ekki síst varðandi boltann. Hvernig ætlar maður að verða betri og slíkt. Maður hefur mikinn áhuga á þessu afli sem hugurinn er."

Einn að glíma við geðsjúkdóm
Starfsmenn Heerenveen voru meðvitaðir um að Ingólfur væri veikur og aðstoðuðu hann og fjölskyldu hans. Þegar hann fór sögðu þeir að hann væri velkominn aftur.

„Ég tók þá á orðinu og fór aftur til þeirra sautján ára. Ég byrjaði að spila með varaliðinu og kunni mjög vel við mig. Ég var fljótur að pikka hollenskuna aftur upp. Bjössi Jóns var þarna og við urðum góðir vinir. Ég var að spila með flottu liði og upplifði það að vera atvinnumaður. Ég spilaði mikið með góðum leikmönnum,," segir Ingólfur.

„Þegar ég er búinn að vera í rúmt hálft ár þá gjörsamlega þyrmir yfir mig og ég verð fárveikur, veikari en nokkru sinni áður. Það var enginn aðdragandi. Allt í einu sekk ég í djúpið og hef ekki nein svör. Ég er ekki nægilega sterkur á þessum tíma. Það er fullt af nýjum tilfinningum. Að vera einn erlendis að glíma við geðsjúkdóm er ekkert spes. Ég er sautján ára, hætti að geta mætt á æfingar og þurfti mikla hjálp."

„Kvíðaröskun er mjög vítt hugtak og engar tvær manneskjur sem upplifa veikindin á sama hátt. En hjá mér voru mikil þyngsli og maður sökk ofan í djúpan og dimman dal og horfði upp í ljónsgin. Maður var bara mjög veikur. Á þeim tímapunkti er maður ekki að hugsa um ferilinn sem fótboltamaður."

„Eftir á að hyggja hefði ég viljað aðeins betri viðtökur frá Heerenveen á þessum tímapunkti því þetta er yfirstíganlegt. Eins og þegar íþróttamaður fær verk í hnéð og er frá í fjórar vikur þá getur það sama gerst fyrir hugann. Þeir skildu þetta bara ekki. Ég var mjög ruglaður og örugglega erfitt að eiga við mig."

Íslendingar elska þegar einhverjum mistekst
Hann fór aftur í KR þegar hann kom til Íslands. Hann átti síðan eftir að láta stór orð falla á Twitter og lýsti því yfir að hann vildi komast frá félaginu. Eftir það gekk hann í raðir Vals.

„Þetta var sumarið mikla 2011 þar sem ég hraunaði yfir allt og alla á Twitter. Þetta sumar var móðukennt. Þetta var ömurlegt ár. Ég var rosalega veikur. Mér bauðst að fara í atvinnumennsku aftur en stoppaði það á síðustu stundu því ég var of veikur. Ég var að upplifa nýja hluti í þessum veikindum," segir Ingólfur.

„Þessi umræða sem skapaðist... ég fæ athygli fyrir fótboltann mjög ungur en eins og við Íslendingar erum þá elskum við það þegar einhverjum mistekst. Okkur finnst það frábært og viljum helst tala þannig um náungann, þegar við erum spurð hvað okkur finnist um einhvern þá reynum við fyrst að finna eitthvað neikvætt. Það endurspeglar kannski hvað við erum lítil í okkur, ég veit það ekki."

„Umræðan var þung og mikil í minn garð en þrátt fyrir það get ég ekki sagt að það hafi verið mun verra fyrir mig. Sem unglingur var neikvætt umtal en fólk vissi ekki söguna. Ég ætlaði ekki að stíga fram með mína sögu. Það var ekki í boði að sýna veikleika. Ég ætlaði ekki að segja neinum að ég væri andlega veikur. Þá væri ég að mála mig út í horn."

„Ég var mjög reglulega upp á geðdeild að ræða við geðlækna og sálfræðinga. Svo hefur fjölskyldan reynst mér ómetanleg."

Gott að hverfa úr umræðunni
Þrátt fyrir allt saman fór Ingólfur út í þriðja sinn, þá til Lyngby í Danmörku.

„Það var yndislegt og mjög gott fyrir mig. Vissulega hafði ég glímt við mikil veikindi en ég vildi verða atvinnumaður í fótbolta. Ég vildi láta reyna á þetta þegar ég fékk tilboð frá Lyngby. Það var ótrúlega fínt að fá þessa fjarlægð og hverfa aðeins úr umræðunni. Ég fékk að vinna í sjálfum mér sem leikmanni. Tíminn hjá Lyngby var fínn," segir Ingólfur.

„Ég spilaði engan aðalliðsleik í deild eða bikar en æfði með aðalliðinu. Ég lærði heilmikið á því. Danirnir eru góðir í fótbolta og ég lærði mikið sem leikmaður."

„Á þessum tíma er ég mjög lyfjaður, tek mikið af pillum. Ég er þungur á mér og missi skyndilega hraða sem ég bjó yfir. Ég er flatur andlega og það kom niður á mér í boltanum. Ég náði ekki að sýna mínar bestu hliðar og var ekki nógu sterkur andlega ennþá til að tækla þetta."

Fékk ekkert að spila hjá Val
Ingólfur kom aftur heim, í þriðja sinn úr atvinnumennsku fyrir tvítugt, og fór í Val.

„Það voru kjaftasögur í gangi en mér var alveg sama. Ég fór í Val og fékk ekkert að spila. Það var eins og það hefði verið fullreynt með mig sem leikmann, ég upplifði það allavega þannig. Magnús Gylfason tekur við og spilar mér ekki, lítið á vormánuðum og ekkert í Íslandsmóti, það var alveg ömurlegt," segir Ingólfur.

„Varðandi veikindin leið mér samt fínt. Þetta var ágætis æfing hugarfarslega að tækla það að vera eins og útbrunninn fótboltamaður. Ég þurfti að tækla erfiðar aðstæður fótboltalega."

Nú er Ingólfur kominn í Þrótt sem leikur í 1. deildinni. „Ég hef æft vel og vil endilega að Þrótturum gangi sem best á vellinum. Ef ég get eitthvað hjálpað þeim er það bara yndislegt."

Ingólfur starfar einnig sem blaðamaður á DV. Ekki alls fyrir löngu skrifaði hann umfjöllun í blaðið um Þórólf Beck sem lék á sínum tíma með Rangers í Glasgow meðal annars. Þórólfur greindist með geðklofa þrítugur að aldri.

„Ég hef gaman af sögu íslenskrar knattspyrnu og landsliðinu. Ég var að grúska í gömlu efni og var að velta Þórólfi fyrir mér. Svo sé ég umfjöllun um að eitthvað var að hrjá hann. Síðan fór ég að rannsaka þetta, talaði við vini og fjölskyldu hans. Þetta var ekki beint tengt mínum veikindum en maður hefur óneitanlega pælt mikið í þessari andlegu hlið og því fannst manni þetta áhugavert."

Þurfum að sýna hvort öðru skilning
Ýmislegt hefur verið sagt um Ingólf á samskiptamiðlum í gegnum árin en hann hefur fengið mikil viðbrögð eftir að hafa sagt sína sögu.

„Fólk verður að eiga það við sjálft sig sem sagt hefur verið. Ég tek því ekkert rosalega alvarlega ef fólk er að segja eitthvað á Twitter eða Facebook. En það sýnir sig kannski enn og aftur að við þurfum að sýna hvort öðru skilning og pæla í hlutunum áður en komið er með sleggjudóma," segir Ingólfur.

„Viðbrögðin hafa verið framar vonum. Ég hef fengið símhringingar, tölvupósta og mikla hlýju og stuðning frá fólki. Frá því að ég kom frá Danmörku hefur mér liðið prýðilega og ekki síst þess vegna sem ég þorði að tala um þetta. Þetta þarf ekki að vera alla ævi endilega, ég hef unnið mikið í sjálfum mér. Ég tek ekki lyf í dag og reyni að brosa,"

Hægt er að hlusta á viðtalið við Ingólf í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner