Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mið 15. júlí 2015 13:30
Arnar Daði Arnarsson
Heimir Guðjóns: Við verðum að skora
Heimir Guðjónsson þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson þjálfari FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH mætir Inter Baku frá Azerbaijan í undankeppni Evrópudeildarinnar annað kvöld í Kaplakrika.

Heimir Guðjónsson segir að möguleikar FH í þessu einvígi séu ágætir.

„Það gæti hjálpað okkur að tímabilið er ekki byrjað hjá þeim. Við höfum verið að horfa á þessa tvo leiki sem þeir spiluðu við Laci frá Albaníu. Við sjáum það á þeim leikjum að það er mikill munur á fyrri og seinni leiknum hjá þeim. Þeir voru töluvert betri í seinni leiknum," sagði Heimir á fréttamannafundi fyrir leikinn sem haldinn var í dag.

Hann segir að það sé mikilvægt að ná góðum úrslitum í leiknum í annað kvöld. „Þetta er gott lið, en við erum á heimavelli og við þurfum að fá góð úrslit. Það verður erfitt að fara í seinni leikinn með stöðuna 0-0, við þurfum að skora. Á einhverjum tímapunkti verðum við að pressa á þá."

„Eins og staðan er í dag þá held ég að möguleikarnir séu góðir. Það hafa verið manna breytingar hjá þeim og það tekur alltaf tíma að slípa saman nýtt lið."

„Þegar þú ert kominn á þetta stig í keppninni er ljóst að við mætum alltaf sterkum andstæðing. Það er ljóst að við þurfum að eiga tvo mjög góða leiki til að komast áfram."

Heimir segir að leikmenn Inter Baku séu flínkir með boltann.

„Það er alveg ljóst að það hefur ekkert hentað okkur vel að spila við lið frá Austur-Evrópu. Þetta eru léttleikandi lið og góðir í stutta spilinu. Ef við tökum FH sem dæmi, þá verðum við að bæta okkur gegn svona liðum," sagði Heimir Guðjónsson að lokum.

Leikurinn hefst klukkan 19:15 annað kvöld og verður í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner