Heimild: Heimasíða HK
HK hefur selt Jón Dag Þorsteinsson til enska knattspyrnufélagsins Fulham en hann fór tvisvar til æfinga hjá Fulham fyrr á árinu, í febrúar og lok apríl. Frá þessu er greint á heimasíðu Kópavogsfélagsins.
Jón Dagur verður 17 ára gamall í nóvember næstkomandi en hann lék þrjá leiki með HK í 1. deildinni síðasta sumar og varð þá yngsti HK-ingurinn frá upphafi til að spila mótsleik með meistaraflokki félagsins. Hann lék í níu af ellefu mótsleikjum HK á undirbúningstímabilinu fyrir yfirstandandi keppnistímabil og skoraði sitt fyrsta meistaraflokksmark í leik gegn Ægi í Fótbolta.net mótinu í vetur.
Jón Dagur lék báða leiki HK í Borgunarbikarnum í byrjun sumars og kom við sögu í 5 leikjum HK í 1. deildinni áður en hann fór út til Fulham en hann hefur spilað 12 leiki með U17 ára landsliði Íslands.
„Sala Jóns Dags til Fulham er í takt við stefnu og metnað knattspyrnudeildar HK að ala af sér öfluga unga knattspyrnumenn og gera þeim kleift að ná langt í íþróttinni. HK er stolt af þeim atvinnumönnum sem komið hafa frá HK og mun halda áfram á braut uppbyggingar félags- og leikmanna," segir á heimasíðu HK.
Athugasemdir