Til í að sjá um leikmannakaup KR!
Brynjólfur Darri Willumsson bar sigur úr býtum í umferðum 1-11 í Draumaliðsdeild Eyjabita með lið sitt Complete Shite.
Brynjólfur Darri er 16 ára gamall en hann spilar fótbolta með 3. flokki Breiðabliks og á að baki leiki með U17 ára landsliði Íslands. Brynjólfur er að taka þátt í Draumaliðsdeildinni þriðja árið í röð en hann vissi ekki strax að hann hefði tekið forystuna í leiknum.
„Ég kíkti ekkert á leikinn í 2-3 umferðir. Síðan sagði vinur minn mér að ég væri efstur og þá byrjaði ég að fylgjast með þessu," sagði Brynjólfur en nokkrir leikmenn hafa raðað inn stigum fyrir hann að undanförnu.
„Garðar (Gunnlaugsson) og Hrvoje (Tokic) hafa verið góðir og Damir (Muminovic) hefur verið sterkur í vörninni."
Ánægður með harðfiskinn
Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, er faðir Brynjólfs. Strákurinn ungi hefur sýnt hæfileika í Draumaliðsdeildinni og segist vera klár í að rétta pabba hjálparhönd hjá KR.
„Mér finnst að ég eigi að sjá um leikmannakaupin," sagði Brynjólfur léttur í bragði.
Eyjabiti er styrktaraðili Draumaliðsdeildarinnar og Brynjólfur fékk fullt af harðfisk fyrir sigurinn í umferðum 1-11.
„Mér finnst harðfiskur vera mjög góður. Maður verður síðan að gefa pabba eitthvað," sagði Brynjólfur brosandi.
Notaðu wildcardið
Vika er í næstu umferð í Draumaliðsdeild Eyjabita og því gefst þátttakendum góður tími til að skoða lið sín fyrir síðari umferðina.
Einu sinni á sumri er hægt að nota "wildcard" og margir vilja eflaust skoða breytingar á liði sínu nú þegar mótið er rúmlega hálfnað.
Wildcard gerir þér kleift að gera ótakmarkaðar ókeypis skiptingar í einni umferð. Þú færð eitt Wildcard yfir tímabilið. Þegar þú leikur þínu Wildcard þá strokast út mínusstigin sem þú hefðir fengið fyrir svo margar skiptingar.
Smelltu hér til að fara í leikinn
Athugasemdir