Í dag mættust ÍA og nýliðar Þróttar R á skaganum í fyrsta leik liðanna á Íslandsmótinu 2005. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið, skaginn vildi vinna fyrsta leik sinn í upphafi íslandsmóts frá árinu 2000 og Þróttur vildi byrja leiktíðina af krafti sem nýliðar í deildinni.
Leikurinn bar þess klárlega merki að liðin væru að hefja leik á Íslandsmótinu, það tók tíma að ná fótfestu á grasinu og sendingar voru ekki eins og þær gerast bestar. Strax á 6. mínútu átti þó Hjörtur Hjartarson gott skot sem var varið af Fjalari Þorgeirssyni markverði Þróttar. Stuttu síðar fékk síðan Andri Júlíusson, sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir ÍA í efstu deild, gott færi en skalli hans var vel varin af Fjalari. Á 13. mínútu átti Þróttur sitt fyrsta færi þegar Daníel Hafliðason átti gott skot sem fór rétt framhjá marki ÍA. Mínútu síðar kom þó fyrsta mark leiksins og annað mark Íslandsmótsins þegar Hjörtur Hjartarson fékk knöttinn til sín inni í vítateignum eftir að Dean Martin hafði átt sendingu frá hægri og Hafþór Ægir Vilhjálmsson, sem einnig var að spila sinn fyrsta leik fyrir ÍA, skallaði knöttinn á Hjört. Hann skaut knettinum fyrst í stöng en fékk frákastið og afgreiddi knöttinn neðst í fjærhornið.
Eftir markið var mikill barningur og knattspyrna ekki burðug hjá liðunum, fá færi sköpuðust og meira var um misheppnaðar sendingar samherja á milli. Baráttan var mikil og leikbrot voru nokkur í fyrri hálfleik, á 37. mínútu fékk Daníel Hafliðason sitt annað gula spjald fyrir grófa tæklingu á Kára Steini Reynissyni en beint rautt spjald hefði verið nær lagi fyrir gjörsamlega fáránlega grófa tæklingu. Lítið annað markvert gerðist í fyrri hálfleik og því var staðan 1-0 fyrir ÍA þegar gengið var til búningsherbergja.
Í upphafi seinni hálfleiks komu þróttarar til leiks af krafti og baráttu, staðráðnir í að berjast til enda þrátt fyrir að vera manni færri og reyna að jafna. Heimamenn virtust vera full rólegir á löngum köflum og draga sig til baka. Þróttur komst sífellt meir og meir í leikinn án þess að skapa sér mörg marktækifæri en skagamenn virtist vanta allt bit í sóknarleik liðsins í seinni hálfleik og sköpuðu sér varla tækifæri. Miðjuþóf og kýlingar varð ráðandi hjá báðum liðum og mátti ekki á milli sjá hvort liðið væri manni færri. ÍA fékk þó ágætis tækifæri á 80. mínútu þegar Ellert Jón Björnsson átti gott skot að marki sem fór rétt yfir mark Þróttar, stuttu síðar komst Sigurður Ragnar Eyjólfsson í gegnum vörn Þróttar en skaut hátt yfir í góðu færi. Undir lok leiksins virtist sem heimamenn væru að pakka í vörn enda sóknir Þróttara orðnar þungar og miklar og skaginn átti í vök að verjast. Þórður Þórðarson bjargaði þrívegis meistaralega, aukaspyrnu frá Eysteini Lárussyni og skoti frá Guðfinni Ómarssyni en ekkert fór framhjá Þórði og þannig náði ÍA að fagna sigri í sínum fyrsta leik gegn Þrótti 1-0.
Skagamenn léku ágætlega framan af leiknum og voru betri aðilinn stærsta hluta fyrri hálfleiks, þegar komið var fram í þann seinni virtist sem ákveðið slen færðist yfir liðið og leikmenn hættu að spila sem ein heild, sérstaklega í sóknarleiknum sem var lítill sem enginn stóran hluta seinni hálfleiks. Þórður Þórðarson var traustur í markinu og bjargaði heimamönnum undir lok leiksins með góðri markvörslu, Finnbogi Llorens og Guðjón Heiðar Sveinsson voru mjög góðir sem bakverðir og þá sérstaklega Finnbogi sem átti hreint frábæran leik þrátt fyrir að vera að spila sinn fyrsta leik í efstu deild. Igor Pesic og Kári Steinn Reynisson áttu góða spretti á miðjunni og það munaði mikið um komu Pálma Haraldssonar af bekknum í seinni hálfleik en hann náði að þjappa betur saman miðjuspilinu hjá Skaganum. Hafþór Ægir Vilhjálmsson átti marga góða takta á vinstri kantinum hjá skaganum, Hjörtur Hjartarson átti síðan góða leik í framlínunni.
Þróttarar vörðust vel til að byrja með og baráttan var í fyrirrúmi. Þeir fengu mark snemma leiks á sig og eftir það fóru þeir að færa sig framar á völlinn til að reyna að jafna metin. Eftir brottvísun Daníels mátti ekki á milli sjá hvort liðið væri manni fleiri og á löngum köflum í seinni hálfleik voru gestirnir betri og á tímabili óheppnir að skora ekki jöfnunarmark. Fjalar Þorgeirsson markvörður átti góðan leik og var traustur að vanda. Jens Sævarsson og Dusan Jaic áttu síðan góðan leik í vörninni og á miðjunni var Páll Einarsson öflugur auk þess sem Halldór Hilmisson var sterkur. Ólafur Tryggvason átti ágæta spretti á kantinum og Guðfinnur Ómarsson átti fína kafla í framlínu Þróttar.
ÍA vann þannig í dag mikilvægan sigur til að halda sér í toppbaráttuni í sumar, liðið verður samt að spila betri knattspyrnu en þetta til að ógna betri liðum í deildinni, miðjuspilið verður að vera sterkara og meiri ógnun að vera til staðar hjá mönnum. Þróttur spilaði þennan leik vel þegar á heildina er litið og á eftir að taka mörg stig í sumar með svona spilamennsku, sérstaklega eins og þeir sýndu einum leikmanni færri.
Athugasemdir