Van Dijk vill framlengja - PSG og Juve vilja Salah - Man Utd vill Rabiot
   mán 12. nóvember 2018 15:30
Magnús Már Einarsson
Kaj Leó: Gervigrasið hentar mér vel
Kaj Leó í leik gegn Val í sumar.
Kaj Leó í leik gegn Val í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
„Valur tikkaði í mörg box hjá mér og ein aðalástæðan fyrir því að ég valdi að fara þangað er leikstíllinn. Ég kann vel við hvernig þeir spila og það hentar mér vel," sagði færeyski landsliðsmaðurinn Kaj Leó í Bartalsstovu við Fótbolta.net í dag en hann skrifaði fyrir helgi undir samning hjá Íslandsmeisturum Vals.

Kaj Leó kom í Pepsi-deildina um mitt sumar 2016 þegar hann gekk í raðir FH. Undanfarin tvö tímabil hefur hann síðan spilað með ÍBV. Talsverður áhugi var á honum í haust.

„Ég ræddi við mörg félög, sum á Íslandi og sum erlendis. Ég er hins vegar viss um að ég tók rétta ákvörðun," sagði Kaj Leó.

„Það er erfitt að fara frá ÍBV. Ég naut tímans þar, kynntist frábæru fólki og leið alltaf eins og heima í Vestmannaeyjum. Ég taldi hins vegar að núna þyrfti ég á einhverju nýju að halda eftir tvö ár þarna. Ég er þakklátur fyrir tíma minn þarna og óska þeim alls hins besta."

Í sumar skoraði Kaj Leó tvö glæsileg mörk gegn Val á Origo-vellinum, eitt í Mjólkurbikarnum og eitt í Pepsi-deildinni.

„Ég hef verið heppinn að skora falleg mörk á Hlíðarenda. Vonandi næ ég að skora nokkur mörk á komandi tímabili líka. Ég er vanur gervigrasi og það hentar mér vel," sagði Kaj Leó sem er ekki smeykur við samkeppnina um sæti í liðinu hjá Val.

„Valur er með frábæra leikmenn, það er ein af ástæðunum fyrir því að ég valdi þá. Samkeppni gerir liðið bara betra," sagði Kaj Leó að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner