Fyrsta þrenna hjá leikmanni karlaliðs Keflavíkur í 6 ár
Adam Árni skoraði þrjú mörk fyrir Keflvíkinga gegn Aftureldingu í kvöld.
Lestu um leikinn: Keflavík 5 - 0 Afturelding
Undir lok leiks nefndi vallarþulur á Nettó vellinum Adam Árna sem mann leiksins og bætti við að þetta væri fyrsta þrenna hjá leikmanni karlaliðs Keflavíkur í 6 ár en þá var Adam aðeins 14 ára gamall. Adam Árni var, eins og gefur að skilja kampakátur í lok leiks.
„Tilfinningin er ógeðslega góð. Ég er mjög ánægður. Það er bara geggjað að geta skorað og skora þrennu á heimavellinum. Ég hafði ekki hugmynd að það væri svona langt síðan. Ég er mjög ánægður."
Keflvíkingar eru með ungt lið og fara ekki leynt með markmið sitt að fara aftur beint upp í efstu deild eftir að hafa vermt botnsætið í deildinni á síðasta tímabili. Adam hefur trölla trú á sínu liði.
„Að sjálfsögðu viljum við fara upp og vinna sem flesta leiki. Fyrst og fremst er mikilvægt að fá leikreynslu, við erum með marga unga leikmenn og við viljum að allir fái að spila sem mest og spila vel. Við verðum að vera klárir í að fara upp og þá förum við upp því við erum nógu góðir." Sagði Adam í viðtali eftir leik. Viðtalið má sjá í heild í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir