KF Nörd 5 - 11 FH
Auðun Helgason fékk að líta rauða spjaldið hjá Kristni Jakobsyni og reif spjaldið af honum og gekk af velli. Hér stingur hann spjaldinu inn undir buxurnar sínar.
Ólafur Jóhannesson þjálfari FH er hér til varnar en þetta var hans fyrsti leikur fyrir FH í fjölda ára.
KF Nörd knattspyrnuliðið vinsæla sem tröllríður nú skjáum landsmanna á Sýn hvert fimmtudagskvöld tókst á við lokaverkefni sitt í kvöld en það var leikur gegn Íslandsmeisturum FH á þjóðarleikvanginum sjálfum. Nördaliðið lofaði tveimur leynivopnum sem komu inn á í leiknum og það voru harðjaxlinn sjálfur af Skaganum Ólafur Þórðarson og sjónvarpsstjarnan Auðunn Blöndal. Í liði FH tóku fram skóna báðir þjálfararnir, Heimir Guðjónsson og það sem meira er Ólafur Jóhannesson.
Það blés ekki byrlega fyrir Nördana því meistarar FH voru komnir í 3-0 forystu eftir fjórar mínútur en FH léku með 6 leikmenn gegn fullskipuðu liði Nördanna. Ragnar Elíasson markvörður KF Nörd sem hefur staðið svo vel það sem af er sýndi afbragðstilþrif stuttu eftir þriðja markið og hélt markaskorinu niðri.
Þegar Kári Gunnarsson leikmaður Nördanna meiddist og var borinn af velli á 9. mínútu leiksins en leikið var 2x20 mínútur skiptu þeir inn á Ólafi Þórðarsyni sem státar af rúmlega 70 landsleikjum og sýndi hann gömul tilþrif inn á miðjunni. Eftir fjórða mark FH kom seinni leynigesturinn í liði Nördanna inn á en það var sjónvarpsstjarnan Auðunn Blöndal sem hressti duglega upp á sóknarleik þeirra.
Eftir fjögura marka syrpu á fjórum mínútum frá FH sem kom þeim í 8-0 var komið að nördunum að skora. Auðunn sem áður hafði brennt af dauðafæri komst upp að marki FH, lék illa á varnarmann þeirra og vippaði yfir Valþór Halldórsson sem stóð í markinu við gífurlegan fögnuð um 7000 áhorfenda sem lögðu leið sína í dalinn til að sjá þennan frábæra leik.
Seinni hálfleikur var allt önnur ella af hálfu KF Nörd. Íslandsmeistararnir bættu reyndar marki við snemma í hálfleiknum en það var svo Ingþór Guðmundsson sem skoraði og minnkaði muninn og aftur fögnuðu áhorfendur alveg eins og óðir væru. Nördarnir voru hvergi nærri hættir og Vilhjálmur Andri Kjartansson bætti við þriðja marki Nördanna stuttu síðar.
Baldur Bett sem var að öllum líkindum að leika sinn síðasta leik fyrir FH kvaddi liðið með glæsimarki en skot hans úr þröngu færi fyrir utan teiginn var einkar laglegt. Auðunn Helgason varnarmaðurinn sterki sem sleit krossbönd fyrr í sumar kom inn á undir lokin en var ekki búinn að vera inn á lengi þegar hann felldi leikmann Nördanna í upplögðu marktækifæri og gat Kristinn Jakobsson dómari leiksins ekkert annað gert en að vísa honum af velli og dæma vítaspyrnu. Úr vítinu skoraði svo Kristján Helgi Benjamínsson með glæsilegri spyrnu sláin inn og þá ætlaði nú allt um koll að keyra á vellinum.
Stemningin í kvöld var frábær og var greinilegt að landsmenn eru að taka vel í þennan skemmtilega sjónvarpsþátt Sýnar en til viðmiðunar á áhorfendur þá voru tæplega tvöfalt fleiri á vellinum en á bikarúrslitaleik KR og Keflavíkur um daginn og sjö sinnum fleiri en mæta venjulega á leik í Landsbanka deildinni. Þættirnir um Nördana eru sýndir á Sýn á fimmtudagskvöldum.
KF Nörd (4-4-2): Ragnar Elíasson (M), Gunnlaugur Snær Ólafsson, Hilmar Kristjánsson, Hermann Fannar Gíslason, Davíð Fannar Gunnarsson, Þórarinn Gunnarsson (F), Kári Gunnarsson, Einar Örn Ólafsson, Ívan Þór Ólafsson, Vilhjálmur Andri Kjartansson, Ingþór Guðmundsson.
Aðrir leikmenn: Björn Elíeser Jónsson, Tandri Waage, Kristján Helgi Benjamínsson, Guðni Guðrúnarson Kristjánsson.
FH: Valþór Halldórsson, Guðmundur Sævarsson, Hermann Albertsson, Baldur Bett, Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Árni Freyr Guðnason, Matthías Vilhjálmsson.
Aðrir leikmenn: Heimir Guðjónsson, Ólafur Jóhannesson, Auðunn Helgason, Birgir Jóhansson, Ólafur A. Guðmundsson, Ólafur Jóhannsson, Hákon Hallfreðsson, Haukur Ólafsson.
Maður leiksins: Ingþór Guðmundsson (KF Nörd)
Dómari: Kristinn Jakobsson
Áhorfendur: Um 7000 manns mættu á þennan merka leik.
Veður: Logn en kalt.
Athugasemdir