Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 01. júní 2021 15:44
Elvar Geir Magnússon
„Geðveikt að spila með Aroni og Birki á miðjunni"
Besta staða Ísaks er á miðjunni
Icelandair
Ísak Bergmann á landsliðsæfingu í dag.
Ísak Bergmann á landsliðsæfingu í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Bergmann Jóhannesson lék um síðustu helgi sinn fyrsta byrjunarliðsleik fyrir íslenska landsliðið, í 2-1 tapinu gegn Mexíkó í Bandaríkjunum.

Þessi 18 ára leikmaður sem spilar fyrir Norrköping í Svíþjóð lék á miðjunni með Aroni Einari Gunnarssyni og Birki Bjarnasyni.

„Við erum að horfa til þess að þróa leikplanið og leikstílinn til lengri tíma. Í þessum leik voru Aron Einar og Birkir rosalega mikilvægir póstar fyrir Ísak, þeir voru að spila þarna þrír saman á miðjunni. Ísak getur nýtt sér reynsluna og gæðin hjá þeim til að styðja sig við. Þá sjáum við gæðin sem hann hefur," segir Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.

Arnar segir að miðjan sé besta staða Ísaks en leikmaðurinn ungi var að spila úti á vængjunum með U21 landsliðinu.

„Núna er hans besta staða á miðjunni. Hans styrkleikar nýtast best þar. Hann á auðvelt með að koma sér inn í teiginn, það eru mörk og stoðsendingar í honum. Þetta er efnilegur leikmaður eins og við vitum öll."

Hefur unnið að þessu mjög lengi
Ísak lítur sjálfur á miðjuna sem sína framtíðarstöðu og segist mikið geta lært af Aroni og Birki, sínum átrúnaðargoðum. Hvernig var tilfinningin eftir fyrsta byrjunarliðsleikinn með landsliðinu?

„Hún var mjög góð. Ég hef unnið að þessu mjög lengi. Það var geðveikt að spila með Aroni og Birki á miðjunni. Ég hef litið upp til þeirra frá því ég man eftir mér og geðveikt að vera kominn á miðjuna með þeim," segir Ísak.

„Vinstra megin á miðjunni er mín uppáhalds staða en ég spila bara þar sem þjálfarinn segir mér að spila. Þegar ég horfi á fótboltaleiki þá spái ég mikið í miðjumönnunum. Ég held að ég verði miðjumaður á mínum ferli."

Ísak var ánægður með frammistöðuna gegn Mexíkó.

„Ég var ánægður með liðsframmistöðuna og mína persónulegu frammistöðu. Við vorum mjög góðir í 70 mínútur," segir Ísak sem segist ekki vera farinn að hugsa út í næstu leiki í undankeppninni í haust.

„Fyrst og fremst fyrir mig er að standa mig vel í næsta leik. Það er bara næsta verkefni sem tekur við, gegn Færeyjum. Mitt hugarfar snýst alltaf um að standa mig á næstu æfingu og í næsta leik. Vonandi verð ég með í verkefninu í haust," segir Ísak.

Spilaði í fyrsta sinn fyrir framan svona marga
Ísak er ekki vanur því að spila fyrir framan marga áhorfendur enda hafa verið takmarkanir vegna Covid-19 allan tímann sem hann hefur spilað aðalliðsfótbolta. Það voru 40 þúsund áhorfendur á leiknum gegn Mexíkó.

Ísak segir það svekkjandi að hafa tapað þeim leik, sérstaklega eftir að íslenska liðið komst yfir.

„Maður vill alltaf vinna þegar maður er inni á fótboltavellinum, hvað þá þegar það eru 40 þúsund öskrandi Mexíkómenn. Mig langaði til að sussa á þá. Það hefði verið geðveikt ef við hefðum náð að vinna þennan leik. Við munum taka þennan góða leik með okkur inn í Færeyjaleikinn," segir Ísak.

„Ég hef aldrei spilað fyrir framan áhorfendur af einhverju viti. Það var sturlað að þetta var fyrsti leikurinn. Ég heyrði að þetta væri einn stærsti viðburður síðan Covid kom upp svo það var heiður að fá að spila þarna."

Sýnum vonandi að við getum stjórnað leikjum
Næst á dagskrá er vináttulandsleikur gegn Færeyjum í Þórshöfn á föstudaginn. Leikur sem er allt öðruvísi verkefni en leikurinn gegn Mexíkó.

„Ég held að við munum stjórna þeim leik. Við höfum þróað okkar leik og vonandi getum við sýnt það gegn Færeyjum að við getum stjórnað leikjum því við erum með gæði innanborðs. Við erum að þróa okkar leik þannig að við erum betri með boltann," segir Ísak Bergmann.
Athugasemdir
banner
banner
banner