
Það er aðeins einn dagur í fyrsta leik Íslands á Evrópumótinu í Sviss. Á morgun spila stelpurnar okkar við Finnland í sínum fyrsta leik á mótinu.
Þetta er auðvitað fimmta Evrópumótið í röð sem Ísland tekur þátt í en síðustu daga höfum við á Fótbolta.net rifjað upp undanfarin mót. Núna er komið að rifja upp síðasta mót sem var árið 2022 í Englandi.
Þetta er auðvitað fimmta Evrópumótið í röð sem Ísland tekur þátt í en síðustu daga höfum við á Fótbolta.net rifjað upp undanfarin mót. Núna er komið að rifja upp síðasta mót sem var árið 2022 í Englandi.
Fullur Laugardalsvöllur
Freyr Alexandersson hefur náð mögnuðum árangri á sínum þjálfaraferli en það er óhætt að segja að þjálfaratíð hans með íslenska landsliðið hafi endað á grátlegan hátt.
Hann fór með liðið inn í undankeppni HM 2019 og þar voru frábærar stundir. Undankeppnin byrjaði á 8-0 sigri gegn Færeyjum þar sem Elín Metta Jensen og Fanndís Friðriksdóttir skoruðu báðar tvö mörk. Svo var komið að einum stærsta sigri í sögu íslenska kvennalandsliðsins er þær unnu 2-3 sigur á Þýskalandi á útivelli. Dagný Brynjarsdóttir gerði tvö mörk í þeim leik.
„Þetta var geðveikt, við vorum ógeðslega flottar og spiluðum hrikalega vel varnarlega og sköpuðum okkur mikið sóknarlega," sagði Dagný eftir þennan magnaða sigur.
Eftir vonbrigðin í Hollandi var Ísland farið að horfa til þess að komast á HM sem var haldið í Frakklandi 2019. En eftir þennan sigur í Þýskalandi þá spilaðist riðillinn ekki alveg eins og við vildum. Við gerðum jafntefli við Tékkland úti og mættum svo Þýskalandi heima í september 2018. Þá vorum við enn með örlögin í höndum okkar og stemningin í kringum liðið var svakalega góð. Þarna var uppselt í fyrsta sinn á Laugardalsvöll fyrir leik hjá kvennalandsliðinu og áhorfendamet var slegið á fullum velli.
Leikurinn endaði hins vegar 0-2 fyrir Þýskaland og þá varð ljóst að íslenska liðið var ekki að fara beint á HM. „Fyrir mig var þetta tilfinningaríkt í þjóðsöngnum og ég fann fyrir stolti," sagði Freyr eftir heimaleikinn gegn Þjóðverjum.
Grátlegur endir
Nokkrum dögum eftir leikinn gegn Þýskalandi þá mættu stelpurnar okkar liði Tékklands á Laugardalsvelli og þar þurftu þær sigur til þess að fara í umspilið. En eins og áður kemur fram, þá var þetta grátlegur endir á þjálfaratíð Freysa með liðið.
HM draumurinn flaug burt með slakri frammistöðu gegn Tékklandi. Íslenska liðið náði sér ekki á strik í leiknum, dómgæslan féll ekki með því og Sara Björk Gunnarsdóttir klúðraði vítaspyrnu á ögurstundu í lokin.
Tékkland komst yfir í leiknum á 11. mínútu þegar Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður liðsins, gerði skelfileg mistök. Arfadapur makedónskur dómari leiksins sleppti því svo að dæma augljóst víti til Íslands í fyrri hálfleik.
Seint í leiknum jafnaði Glódís Perla fyrir Ísland, en í uppbótartíma fékk Ísland víti sem markvörður Tékka varði frá Söru Björk. Ísland endaði í öðru sæti í riðlinum en það dugði ekki til að komast í umspilið.
„Þetta er úti og þá var ég búinn að tilkynna sambandinu að ég myndi hætta eftir þessa keppni. Þetta var minn seinasti landsleikur og þá eru blendnar tilfinningar sem fylgja því," sagði Freyr eftir leikinn en hann stýrði landsliðinu í fimm ár.
Jón Þór tekur við og kemur liðinu á EM
Freysi var gríðarlega vinsæll innan leikmannahópsins og það var sárt fyrir liðið að sjá eftir honum. Í hans stað var Jón Þór Hauksson ráðinn landsliðsþjálfari. Það var athyglisverð ráðning þar sem Jón Þór hafði litla sem enga reynslu af því að vera aðalþjálfari áður en hann tók við landsliðinu, eins og var með Sigga Ragga þegar hann tók við liðinu á sínum tíma. Jón Þór hafði verið aðstoðarþjálfari karlaliðs ÍA og stýrt liðinu í fáeinum leikjum sem bráðabirgðarþjálfari og var hann aðstoðarþjálfari Stjörnunnar áður en hann var ráðinn til KSÍ. Aðstoðarþjálfari hans var Ian Jeffs, sem hafði gert kvennalið ÍBV að bikarmeisturum.
Jón Þór tók við liðinu fyrir undankeppni EM þar sem riðill Íslands var svona:
Svíþjóð
Ísland
Slóvakía
Ungverjaland
Lettland
Fyrsti leikur hans var hins vegar æfingaleikur við Skotland og þar var byrjunarliðið svona:
12. Sonný Lára Þráinsdóttir (m)
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir
2. Sif Atladóttir
4. Glódís Perla Viggósdóttir
5. Fanndís Friðriksdóttir
6. Ingibjörg Sigurðardóttir
7. Sara Björk Gunnarsdóttir (f)
9. Berglind Björg Þorvaldsdóttir
11. Hallbera Guðný Gísladóttir
16. Elín Metta Jensen
17. Agla María Albertsdóttir
Elín Metta Jensen skoraði bæði mörkin í 2-1 sigri Íslands í þessum leik.
Fyrir utan Svíþjóð átti þetta að vera frekar einfaldur riðill og það endaði á því að vera þannig. Íslenska liðið gerði jafntefli við Svíþjóð heima en tapaði gegn þeim úti. Liðið endaði með 19 stig í öðru sæti riðilsins og það var nóg til þess að komast beint á fjórða Evrópumótið í röð.
Jón Þór segir af sér
Þann 4. desember árið 2020, nokkrum dögum eftir að Ísland tryggir sig inn á Evrópumótið þá kemur frétt inn á Fótbolta.net þar sem segir að KSÍ skoði framkomu Jóns Þórs í fögnuði Íslands. „Í fögnuði um kvöldið var áfengi haft um hönd og þá komu upp atvik. Jón Þór Hauksson þjálfari íslenska liðsins var undir áhrifum áfengis og þótti hafa farið yfir strikið í samræðum við leikmenn sem sumar voru í uppnámi," segir í fréttinni.
Þann 8. desember sagði Jón Þór svo starfi sínu lausu.
„Undanfarna daga hafa samtöl mín við leikmenn liðsins leitt mig að þeirri niðurstöðu að erfitt verði að endurheimta nauðsynlegt traust á milli mín sem þjálfara og einstakra leikmanna," sagði Jón Þór og bætti við að hann hefði brugðist sem þjálfari liðsins.
Hér fyrir neðan má skoða yfirlýsingu frá leikmönnum landsliðsins.
Steini tekur við og stýrir liðinu á EM
Þegar Jón Þór hætti með liðið þá voru það aðallega tveir þjálfarar sem komu til greina; Elísabet Gunnarsdóttir og Þorsteinn Halldórsson. Þann 25. janúar var ljóst að Elísabet myndi ekki taka við landsliðinu þar sem hún vildi halda áfram að stýra Kristianstad áfram út árið áður en hún myndi hætta þar. KSÍ samþykkti það ekki og var Þorsteinn ráðinn nokkrum dögum síðar.
Þetta er líklega sú ráðning sem átti að eiga sér stað þegar Freyr hætti með liðið en þarna kemur Þorsteinn inn. Hann kemur inn á svolítið erfiðum tíma þar sem þarna er Covid og búið að fresta EM um eitt ár, þangað til sumarið 2022. Hann fer fyrst í vináttuleiki gegn Ítalíu og Írlandi áður en það er svo leikur gegn Hollandi í undankeppni HM í september. Sá leikur endaði með 0-2 tapi.
Svo unnum við 4-0 sigur á Tékklandi, 5-0 sigur á Kýpur og 0-4 sigur á Kýpur í síðustu leikjum ársins. Eftir það kom 2022, EM árið.
Ó, Frakkarnir aftur?
Þorsteinn fékk ágætis tíma með liðið fram að móti en hann hefði örugglega viljað fá enn fleiri alvöru leiki. Ísland dróst í riðil á EM með Belgíu, Ítalíu og já, þið giskuðu á það, Frakklandi. Þriðja mótið af fjórum sem við erum með Frakklandi í riðli. Ótrúleg tölfræði sem það er.
Þann 11. júní árið 2022 tilkynnti Steini EM hóp sinn sem færi með til Englands.
Hann var svona:
Markverðir:
Cecilía Rán Rúnarsdóttir (Bayern München)
Sandra Sigurðardóttir (Valur)
Telma Ívarsdóttir (Breiðablik)
Varnarmenn:
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir (Breiðablik)
Elísa Viðarsdóttir (Valur)
Glódís Perla Viggósdóttir (Bayern München)
Guðný Árnadóttir (AC Milan)
Guðrún Arnardóttir (Rosengård)
Hallbera Guðný Gísladóttir (Kalmar)
Ingibjörg Sigurðardóttir (Vålerenga)
Sif Atladóttir (Selfoss)
Miðjumenn:
Alexandra Jóhannsdóttir (Breiðablik)
Dagný Brynjarsdóttir (West Ham)
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (Orlando Pride)
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (Bayern München)
Sara Björk Gunnarsdóttir (Lyon)
Selma Sól Magnúsdóttir (Rosenborg)
Framherjar:
Amanda Andradóttir (Kristianstad)
Agla María Albertsdóttir (Häcken)
Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Brann)
Elín Metta Jensen (Valur)
Svava Rós Guðmundsdóttir (Brann
Sveindís Jane Jónsdóttir (Wolfsburg)
Það má segja að þarna hafi verið komin inn smá ný kynslóð í landsliðið; leikmenn eins og Sveindís Jane og Karólína Lea sem voru að taka við keflinu.
Sara Björk var líka í hópnum eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn. Þetta var hennar síðasta stórmót með landsliðinu.
Hópurinn byrjaði á því að koma saman í Póllandi þar sem þær unnu 3-1 sigur á heimakonum í æfingaleik og svo var haldið til Þýskalands þar sem var farið í vikulangar æfingabúðir í smábænum Herzogenrauch. Fótbolti.net fylgdi liðinu eftir í öllum undirbúningnum og var það skemmtilegur tími. Svo var haldið til Englands þar sem liðið var með aðsetur rétt fyrir utan Crewe.
Taplausar en komust samt ekki áfram
Fyrsti leikur mótsins var gegn Belgíu á akademíuvellinum í Manchester og er óhætt að segja að það hafi verið hægt að vera grautfúll eftir þann leik. „Grátlegt að vinna ekki þennan leik, tilfinningin var sú að Ísland var betra liðið hér í dag," skrifaði Sæbjörn Þór Steinke í textalýsingu sinni frá leiknum sem endaði með 1-1 jafntefli. Berglind Björg Þorvaldsdóttir klikkaði bæði á víti og skoraði í leiknum en Belgar jöfnuðu úr víti um miðbik seinni hálfleiks.
Í leik tvö á móti Ítalíu skoraði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sitt fyrsta mark á stórmóti og fagnaði því með stæl. Aftur náði Ísland forystunni í leik sínum, og aftur dugði það ekki til því Ítalir náðu að jafna metin. Þannig enduðu leikar en tilfinningin eftir þennan leik var öðruvísi þar sem Ítalir voru sterkari aðilinn á vellinum og íslenska liðið kannski heppið að taka stigið.
Það var gríðarlegur hiti í Rotherham fyrir lokaleikinn í riðlinum gegn Frakklandi þar sem íslenska liðið þurfti að vinna Frakkland eða að treysta á jafntefli í hinum leiknum. Lengi var Ísland á leið áfram þó Frakkar hafi skorað einhverjar 40 sekúndur því staðan var jöfn í hálfleik hjá Belgíu og Ítalíu. Í byrjun seinni hálfleiks skoraði Belgía hins vegar það sem reyndist vera sigurmarkið. Ísland spilaði sinn besta leik á mótinu gegn Frakklandi en það dugði ekki til. Dagný Brynjarsdóttir jafnaði úr víti í lokin og það sem hefði vanalega verið frábært jafntefli, var í staðinn grátlegur endir á skemmtilegu móti.
Alltaf eru það Frakkarnir sem eyðileggja allt.
Íslenska liðið var taplaust og margir jákvæðir punktar við frammistöðu liðsins, en það var ekki nóg.
Það var England sem fór með sigur af hólmi á heimavelli eftir að þær lögðu Þýskaland að velli í úrslitaleiknum.
Núna er komið að EM 2025 og á því móti tökum við vonandi sigur í fyrsta sinn síðan 2013 og komumst upp úr riðlinum í annað sinn í sögunni.
Leikir Íslands á EM 2025:
2. júlí, Ísland - Finnland
6. júlí, Ísland - Sviss
10. júlí, Ísland - Noregur
Athugasemdir