Inter á eftir Guehi - Man Utd sýnir miðjumanni Chelsea áhuga - Stórlið sýna miðjumanni Lille áhuga
banner
   lau 01. nóvember 2025 18:06
Ívan Guðjón Baldursson
Tómas Bent skoraði í stórsigri Hearts
Mynd: Gleðjum Saman
Mynd: Grimsby
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Malmö
Það var nóg um að vera hjá Íslendingunum okkar sem leika erlendis, þar sem Tómas Bent Magnússon kom inn af bekknum og skoraði fjórða markið í frábærum sigri Hearts á heimavelli gegn Dundee FC.

Hearts er afar óvænt á toppi skosku deildarinnar sem stendur, með 29 stig eftir 11 umferðir. Liðið er 9 stigum fyrir ofan ríkjandi meistara Celtic sem eiga þó leik til góða.

Tómas Bent hefur verið að koma inn af bekknum á lokamínútunum í undanförnum leikjum en í dag fékk hann að spila síðustu 20 mínúturnar og nýtti tækifærið með því að skora mark.

Hann innsiglaði 4-0 sigur og er þetta hans fyrsta mark frá félagaskiptunum til Hearts frá Val síðasta sumar.

Í enska boltanum mættu Grimsby Town og Stockport County til leiks í FA bikarnum og unnu sína leiki.

Jason Daði Svanþórsson lék allan leikinn á kantinum í 3-1 sigri Grimsby gegn Ebbsfleet á meðan Benóný Breki Andrésson sat á bekknum í sigri Stockport gegn Tranmere Rovers. Ensku Íslendingaliðin eru þar með komin áfram í næstu umferð bikarsins.

Í næstefstu deild í Danmörku komu hinir efnilegu Ólafur Dan Hjaltason og Jóhannes Kristinn Bjarnason, sem eru báðir fæddir 2005, inn af bekkjunum í jafnteflisleikjum hjá Aarhus Fremad og Kölding.

Aarhus Fremad er í fallbaráttu með 18 stig eftir 15 umferðir, fjórum stigum á eftir Kölding.

Í næstefstu deild í Noregi komu Davíð Snær Jóhannsson og Ólafur Guðmundsson saman inn af bekknum í þægilegum sigri hjá Álasundi gegn Asane. Liðin áttust við í næstsíðustu umferð deildartímabilsins.

Davíð og Ólafur fengu aðeins að spila síðustu tíu mínúturnar í 3-0 sigri sem tryggir Álasundi farmiða í umspilskeppni um sæti í efstu deild.

Álasund á ennþá möguleika á að stela öðru sæti deildarinnar til að komast beint upp um deild, en þeir möguleikar eru afar litlir þar sem bæði liðin í sætunum fyrir ofan, Start og Kongsvinger, þyrftu að tapa eða gera jafntefli í lokaumferðinni.

Tíu leikmenn Odd töpuðu þá á heimavelli gegn Sogndal en Hinrik Harðarson var ónotaður varamaður.

Í sænska boltanum var Daníel Tristan Guðjohnsen ónotaður varamaður í jafntefli hjá Malmö á útivelli gegn Häcken. Malmö tók forystuna snemma leiks en Häcken tókst að jafna á lokamínútunum og var Arnór Sigurðsson ekki í hóp vegna meiðsla.

Malmö er búið að missa af Evrópusæti eftir þetta jafntefli en getur ennþá komist í Evrópu í gegnum sænska bikarinn.

Óskar Tor Sverrisson lék þá allan leikinn í tapi Ariana gegn Jonköping í þriðju efstu deild í sænska boltanum. Ariana siglir lygnan sjó í fimmta sæti deildarinnar á meðan Jonköping stefnir á umspilsleik um sæti í Superettan, næstefstu deild.

Að lokum var Guðmundur Þórarinsson ónotaður varamaður í tapi hjá FC Noah á heimavelli gegn Ararat í toppbaráttunni í armensku deildinni.

Noah er búið að tapa tveimur leikjum í ellefu umferðum á deildartímabilinu og situr í fjórða sæti á stöðutöflunni, sex stigum á eftir toppliði Ararat.

Hearts 4 - 0 Dundee FC
1-0 Lawrence Shankland ('31)
2-0 Pierre Kabore ('38)
3-0 Pierre Kabore ('56)
4-0 Tómas Bent Magnússon ('79)

Grimsby 3 - 1 Ebbsfleet

Tranmere 1 - 3 Stockport

Aarhus Fremad 0 - 0 Hvidovre

Hilleröd 1 - 1 Kölding

Aalesund 3 - 0 Asane

Odd 1 - 4 Sogndal

Hacken 1 - 1 Malmö

Jonköping 1 - 0 Ariana

Noah 1 - 2 Ararat

Athugasemdir
banner
banner