Inter á eftir Guehi - Man Utd sýnir miðjumanni Chelsea áhuga - Stórlið sýna miðjumanni Lille áhuga
   lau 01. nóvember 2025 18:52
Ívan Guðjón Baldursson
Emelía skoraði í stórsigri HB Köge
Kvenaboltinn
Mynd: HB Köge
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Emelía Óskarsdóttir kom inn af bekknum og skoraði fimmta mark HB Köge í stórsigri gegn Kölding í efstu deild danska boltans.

Köge er með átta stiga forystu á toppi deildarinnar en næstu lið fyrir neðan eiga leik til góða. Emelía og stöllur eiga 30 stig eftir 11 umferðir.

19 ára gömul Emelía er ekki með sæti í byrjunarliðinu en hefur verið að koma inn af bekknum. Hún fékk að spila síðasta hálftímann í dag og nýtti tækifærið með því að skora mark.

Í næstefstu deild var Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir í byrjunarliðinu hjá FCK sem vann auðveldlega á útivelli gegn Österbro. FCK er á toppi deildarinnar, einu stigi fyrir ofan ASA Aarhus.

Andrea Celeste Þórisson Díaz, fyrrum unglingalandsliðskona Íslands sem leikur fyrir A-landslið Perú í dag, bar þá fyrirliðabandið í 2-1 sigri Bollstanäs gegn Gamla Upsala í næstefstu deild í Svíþjóð.

Þetta er mikilvægur sigur fyrir Bollstanäs sem vippar sér úr fallsæti þegar aðeins tvær umferðir eru eftir af deildartímabilinu.

Hildur Antonsdóttir kom svo inn af bekknum þegar Madrid tapaði heimaleik gegn Granada í efstu deild spænska boltans.

Leikurinn var afar tíðindalítill og fékk Hildur að spila síðasta stundarfjórðunginn en tókst ekki að jafna metin fyrir Madrid. Hildur og stöllur eru í efri hluta deildarinnar með 14 stig eftir 9 umferðir, tveimur stigum meira en Granada.

Bergrós Ásgeirsdóttir lék þá allan leikinn fyrir Aarau í tapi gegn Grasshoppers í efstu deild í Sviss.

Aarau er aðeins með 3 stig eftir 9 umferðir, en Grasshoppers situr í öðru sæti deildarinnar með 19 stig.

Í portúgalska boltanum tapaði Damaiense á útivelli gegn Vitoria Guimaraes og eru lærlingar Kristjáns Guðmundssonar því áfram með fjögur stig í fallbaráttunni, eftir fimm umferðir.

Vigdís Lilja Kristjánsdóttir var að lokum í byrjunarliði Anderlecht í stórsigri gegn Ninove í belgíska bikarnum en upplýsingar um markaskorara hafa ekki borist.

HB Köge 6 - 1 Kölding
1-0 N. Nadim ('6)
2-0 M. Gejl ('29)
2-1 M. Wendicke ('34, víti)
3-1 C. Korhonen ('52)
4-1 R. Madsen ('57)
5-1 Emelía Óskarsdóttir ('72)
6-1 N. Nadim ('91)

Österbro 1 - 4 FC Köbenhavn

Bollstanas 2 - 1 Gamla Upsala

Madrid 0 - 1 Granada

Aarau 0 - 1 Grasshoppers

Vitoria Guimaraes 3 - 1 Damaiense

Anderlecht 7 - 0 Ninove

Athugasemdir
banner
banner