McKenna hefur stýrt Ipswich í tæplega fjögur ár og er búinn að afreka stórkostlega hluti með félaginu. Hann hefur verið orðaður við ýmis önnur félög í gegnum tíðina og núna eru Skotlandsmeistarar áhugasamir.
Celtic er í þjálfaraleit eftir að Brendan Rodgers hrökklaðist úr starfi á dögunum og hafa ýmsir menn verið orðaðir við starfið.
Kieran McKenna, þjálfari Ipswich Town, er meðal þeirra sem hafa verið nefndir á nafn en Sky Sports er meðal fjölmiðla sem segir minnkandi líkur á að hann taki við hjá skosku meisturunum.
Í fyrsta lagi hefur McKenna ekki mikinn áhuga á að yfirgefa Ipswich á miðju tímabili og í öðru lagi er hann ekki falur fyrir minna heldur en 5 milljónir punda, sem er talið vera hátt verð fyrir þjálfara.
Celtic er sagt hafa mikinn áhuga á McKenna og er Ipswich tilbúið til að leyfa honum að fara fyrir 5 milljónir.
Celtic er óvænt í öðru sæti skosku deildarinnar með 17 stig eftir 9 umferðir, heilum 8 stigum á eftir Tómasi Bent Magnússyni og félögum í toppliði Hearts.
Ipswich hefur farið rólega af stað í Championship eftir fall úr ensku úrvalsdeildinni. Liðið situr um miðja deild, með 16 stig eftir 11 umferðir.
Ange Postecoglou og Craig Bellamy eru einnig orðaðir við stjórastarfið hjá Celtic.
29.10.2025 06:00
Þrír stjórar orðaðir við Celtic
Athugasemdir




