Man City, Man Utd og Arsenal á eftir Etta Eyong - Milan hefur áhuga á Zirkzee - Bayern í viðræðum um bakvörð
banner
   fös 31. október 2025 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Sammála um að rifta samningnum - „Langar að njóta þess að spila fótbolta aftur"
Albert vill spila meira á næsta tímabili, hann og félagið voru sammála um að riftun á samningi væri besta lausnin.
Albert vill spila meira á næsta tímabili, hann og félagið voru sammála um að riftun á samningi væri besta lausnin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kom aftur í ÍA um mitt mót 2023 og hjálpaði liðinu upp í Bestu deildina. Mjaðmameiðsli settu strik í reikninginn 2024 og náði hann lítið að spila það tímablið.
Kom aftur í ÍA um mitt mót 2023 og hjálpaði liðinu upp í Bestu deildina. Mjaðmameiðsli settu strik í reikninginn 2024 og náði hann lítið að spila það tímablið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Eftir allt þetta vesen langar mig að njóta þess að spila fótbolta aftur enda loksins kominn í mitt besta form'
'Eftir allt þetta vesen langar mig að njóta þess að spila fótbolta aftur enda loksins kominn í mitt besta form'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skagamaðurinn Albert Hafsteinsson yfirgaf ÍA í vikunni. Hann var samningsbundinn ÍA út næsta tímabil, eftir að hafa skrifað undir þriggja og hálfs árs samning sumarið 2023 þegar hann kom frá Fram.

Albert var frá nánast allt síðast tímabil vegna meiðsla, kom aðeins við sögu í fjórum leikum í deild og bikar. Á þessu tímabili kom hann við sögu í 17 deildarleikjum - byrjaði einungis fjóra þeirra - og tveimur bikarleikjum.

Fótbolti.net ræddi við Albert um tíðindin og tímabilið.

„Bæði ég og félagið erum ekki sátt við spilatímann. Í fyrra fór ég í aðgerð á mjöðm og missti þ.a.l. af öllu tímabilinu og kom mér svo í gang fyrir þetta tímabil. Ég náði að spila 17 leiki en þetta voru þannig lagað fáar mínútur í hverjum leik. Ég var ósáttur með mínúturnar sem ég fékk sem byrjunarliðsmaður og félagið líka. Niðurstaðan varð sú að ég og félagið vorum ekki tilbúin að halda áfram á þessari vegferð á þessum tímapunkti á mínum ferli. Ég sé fyrir mér nokkur ár í viðbót þar sem ég er að spila fótbolta í stærra hlutverki. Mitt markmið eftir þessi leiðinlegu meiðsli, og alla vinnuna sem ég lagði á mig að ná mér af þeim, þá langar mig að spila reglulega í einhverju liði," segir Albert.

Hann er 29 ára miðjumaður sem hóf meistaraflokksferilinn 2015 og var hjá ÍA út tímabilið 2019. Hann hélt svo í Fram þar sem hann var hluti af sögulegum árangri í Lengjudeildinni, Fram fór ósigrað upp úr næstefstu deild árið 2021 og Albert fór svo heim á Akranes um mitt mót 2023.

Eins og ég skil þig þá sá félagið fyrir sér að þú yrðir í stærra hlutverki, og þú líka. Þjálfarinn sá þetta bara öðruvísi?

„Þegar ég kem frá Fram '23 þá hjálpa ég liðinu að komast upp úr Lengjudeildinni. Mjaðmameiðslin héldu mér frá í fyrra. Í ár var tímabilið þannig að ég er að koma til baka, næ að koma mér í gang og bæði ég og félagið búumst við því að ég verði lykilmaður, en það var ekki raunin. Þetta varð því sameiginleg ákvörðun milli mín og félagsins að rifta samningi."

Áttir þú einhver samtöl við þjálfarana, Jón Þór og svo Lárus Orra?

„Ég var kominn í nokkuð stórt hlutverk - mínir byrjunarliðsleikir í sumar koma undir stjórn Jóns Þórs. Jón sá mig alltaf í stóru hlutverki. Lárus tók við á erfiðum tíma, hann finnur sitt lið og ég er aukaleikari þegar liðið komst á skrið. Ég sá þetta þannig að ef ég yrði ekki í stóru hlutverki á næsta ári langaði mig að fara annað þar sem ég fengi að spila meira. Ég lagði mikið á mig í fyrra og í ár til að koma til baka, mig langar að halda áfram að spila reglulega. Eftir allt þetta vesen langar mig að njóta þess að spila fótbolta aftur enda loksins kominn í mitt besta form."

Albert vildi spila meira, en var hann ósáttur við Lárus Orra?

„Nei. Það kom mér á óvart hversu klókur þjálfari hann er, miðað við hvað hann var lengi frá fótbolta. Hann hefur verið virkilega öflugur í þessu starfi, er virkilega klókur að lesa önnur lið, góður að leggja upp leiki á móti andstæðingum - er auðvitað búinn að stúdera liðin inn og út í sjónvarpinu. Hann er mjög klókur að leggja upp leiki gegn mismunandi liðum."

„Það sem ég var aðallega ósáttur við var að ég fékk aldrei að spila á miðjunni hjá Lárusi, mína stöðu. Ég held að ég hefði alveg getað leyst það hlutverk eins og aðrir gerðu, það var það eina sem ég var ósáttur við. Annars hef ég ekkert nema gott um Lárus að segja, hann stóð sig virkilega vel og kom mér á óvart hversu flottur hann var í því að rýna í mismunandi andstæðinga,"
segir Albert.
Athugasemdir
banner