Vinstri bakvörðurinn Jamal Lewis, sem rann út á samningi hjá Newcastle United síðasta sumar, er búinn að skrifa undir skammtímasamning við Preston North End í Championship deildinni.
Samningurinn gildir aðeins til áramóta og verður Lewis því liðsfélagi Stefáns Teits Þórðarsonar hjá Preston næstu mánuðina, en Stefán hefur ekki fengið mikinn spiltíma á upphafi nýs tímabils eftir að hafa verið byrjunarliðsmaður á síðustu leiktíð.
Lewis er 27 ára gamall og spilaði 31 úrvalsdeildarleik fyrir Newcastle áður en hann var lánaður út til Watford í Championship deildinni tímabilið 2023-24 og svo til Sao Paulo í Brasilíu í september í fyrra.
Hann sleit liðband í ökkla með norður-írska landsliðinu í nóvember í fyrra og missti af stærsta hluta síðasta tímabils vegna meiðslanna.
Lewis kemur til Preston á frjálsri sölu en liðið er í sjöunda sæti í Championship deildinni sem stendur, með 19 stig eftir 12 umferðir.
„Við erum að glíma við meiðsli svo okkur vantaði leikmann til að breikka hópinn og við erum hæstánægðir með að hafa tryggt okkur jafn gæðamikinn leikmann og Jamal," sagði Paul Heckingbottom þjálfari Preston meðal annars. „Hann hefur keppt á hæsta gæðastigi og býr yfir góðri reynslu úr þessari deild."
Lewis fór upp úr Championship deildinni með Norwich tímabilið 2018-19 og lék svo með þeim í úrvalsdeildinni áður en Newcastle keypti hann.
Norwich hafnaði 10 milljóna punda tilboði frá Liverpool í Lewis sumarið 2020 en Newcastle keypti hann síðan fyrir um 15 milljónir.
Jamal joins North End. ????
— Preston North End FC (@pnefc) October 31, 2025
We’re delighted to welcome defender Jamal Lewis to the club on a deal until 30th December 2025.#pnefc pic.twitter.com/XCj3NnUWBv
Athugasemdir


