Morten Ohlsen Hansen er á förum frá Vestra samkvæmt heimildum Fótbolta.net.
Danski varnarmaðurinn er samningslaus og er að skoða í kringum sig, en samkvæmt heimildum Fótbolta.net vill hann vera áfram á Íslandi, en ólíklegt er að hann haldi áfram fyrir vestan.
Morten hefur verið máttarstólpur í liði Vestra frá því að þeir fóru upp úr Lengjudeildinni. Þar áður var hann á mála hjá Kórdrengjum undir stjórn Davíðs Smára.
Davíð Smári hefur verið orðaður við þjálfarastöðu Njarðvíkur en hann hefur miklar mætur á leikmanninum og sótti hann vestur frá Kórdrengjum.
Vestri er fallið úr Bestu deildinni og hafa þegar tveir leikmenn tilkynnt að þeir séu á förum frá félaginu, þeir Anton Kralj og Gustav Kjeldsen.
Óvissa er um hver stýrir liðinu á næsta tímabili en Jón Þór Hauksson tilkynnti jafnframt um síðustu helgi að hann muni ekki stýra liðinu á næsta tímabili.


