Chiesa mögulegur arftaki Kvaratskhelia - Delap og Zirkzee orðaðir við Juventus
   sun 01. desember 2024 22:42
Elvar Geir Magnússon
„Þurfum á öllum okkar kröftum að halda“
Icelandair
Mynd: KSÍ
Selma Sól Magnúsdóttir.
Selma Sól Magnúsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland mætir Danmörku í seinni vináttuleik sínum á Pinatar Arena á Spáni á morgun, mánudag.

Leikurinn hefst kl. 17:00 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu hjá Sjónvarpi Símans og á KSÍ TV í viðmóti Sjónvarps Símans.

Ísland gerði markalaust jafntefli gegn Kanada á föstudag á sama velli en þetta er eini leikur Danmerkur í þessum landsliðsglugga.

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari Íslands var ánægður með frammistöðu íslenska liðsins gegn Kanada en varnarleikurinn hjá okkar liði var afskaplega traustur.

„Ég er mjög sáttur. Varnarlega var frammistaðan mjög góð og sóknarlega á köflum bara fín, sköpuðum ágætis færi. Við hefðum alveg getað unnið þennan leik," sagði Þorsteinn í viðtali við miðla KSÍ.

„Þetta verður hörkuleikur. Danir spila bara einn leik í þennan glugga og svo það er engin þreyta. Þær mæta væntanlega með sitt sterkasta lið og spila á móti okkur af fullum krafti. Danmörk er með gott fótboltalið og við þurfum á öllum okkar kröftum að halda og góða frammistöðu."

Alltaf gaman að spila við Danmörku
Ísland vann Danmörku síðast þegar liðin mættust, í Þjóðadeildinni í Viborg á síðasta ári. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði eina markið í leiknum. Danska liðið er í tólfta sæti á styrkleikalista FIFA og Ísland í því þrettánda.

„Það eru klárlega margir hlutir sem við getum tekið með okkur úr þeim leik í þann næsta. Það eru einhver atriði sem hægt er að laga. Við förum bara vel yfir þau," segir Selma Sól Magnúsdóttir, leikmaður Íslands, um síðasta leik.

„Það er alltaf gaman að spila við Danmörku og gaman að bera sig saman við góð lið. Bara mjög spennandi. Við þurfum að halda áfram að vera þéttar í varnarleiknum."



Athugasemdir
banner
banner
banner