Phillips, Toney, Guirassy, Vlahovic, Thuram, Mbappe og fleiri koma við sögu.
   mán 02. október 2023 21:12
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Stjarnan innsiglaði Evrópusæti
watermark
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Stjarnan 3 - 1 Víkingur R.
1-0 Eggert Aron Guðmundsson ('5)
2-0 Hilmar Árni Halldórsson ('7)
3-0 Eggert Aron Guðmundsson ('60)
3-1 Helgi Guðjónsson ('78)

Lestu um leikinn: Stjarnan 3 -  1 Víkingur R.

Stjarnan tók á móti Íslandsmeisturum Víkings R. í þýðingarlitlum leik í efri hluta Bestu deildar karla, þar sem Stjörnunni nægði eitt stig til að tryggja sér sæti í forkeppni Sambandsdeildarinnar á næstu leiktíð.

Leikurinn byrjaði með látum þar sem gestirnir úr Fossvoginum voru næstum búnir að skora á upphafsmínútunum, áður en Eggert Aron Guðmundsson skoraði eftir undirbúning frá Örvari Loga Örvarssyni. Örvar gerði vel að koma sér að endalínunni og leggja boltann út í teiginn.

Skömmu síðar klúðraði Helgi Guðjónsson dauðafæri og refsuðu Garðbæingar með stórglæsilegu marki frá miðjuboganum. Hilmar Árni Halldórsson var þar á ferðinni, þar sem hann sá að Þórður Ingason var kominn langt af marklínunni áður en hann lyfti boltanum yfir hann og í netið.

Víkingar sóttu í sig veðrið eftir slæma byrjun og hreint ótrúlegt að þeim hafi ekki tekist að minnka muninn fyrir leikhlé þar sem hvert færið eftir öðru fór forgörðum.

Það ríkti meira jafnræði með liðunum í síðari hálfleik og voru það heimamenn sem settu þriðja mark leiksins, og aftur var Eggert Aron á ferðinni. Í þetta skiptið fékk hann boltann fyrir utan teig, færði sig yfir á vinstri fótinn og negldi boltanum í samskeytin fjær til að skora magnað mark og sitt tíunda í sumar.

Víkingur náði loks að minnka muninn þegar Helgi Guðjóns skoraði á 78. mínútu, en nær komust gestirnir ekki. Heimamenn í Garðabæ voru líklegri heldur en gestirnir úr Fossvogi til að bæta við marki á lokakaflanum.

Lokatölur 3-1 sigur og er Stjarnan örugg með sæti í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Garðbæingar eru í þriðja sæti Bestu deildarinnar fyrir lokaumferðina, með 43 stig úr 26 umferðum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner