Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   þri 03. janúar 2023 14:38
Elvar Geir Magnússon
Uppgangur Enzo með hreinum ólíkindum - Ellefufaldast í verði á hálfu ári
Enzo Fernandez í leik með Benfica.
Enzo Fernandez í leik með Benfica.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Benfica borgaði 10 milljónir punda fyrir Enzo Fernandez síðasta sumar og nú er hann á barmi þess að vera seldur til Chelsea fyrir 112 milljónir punda.

Síðustu tólf mánuðir hafa verið ótrúlegir hjá þessum 21 árs miðjumanni. Í upphafi ársins 2022 var hann enn að fóta sig hjá River Plate í heimalandinu en hlutirnir hafa gerst á ógnarhraða.

Hann spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Argentínu í september síðastliðnum en fyrir nokkrum vikum fagnaði hann heimsmeistaratitlinum með Argentínu og var valinn besti ungi leikmaður mótsins.

Þó Enzo Fernandez hafi verið álitinn mjög spennandi ungur leikmaður með bjarta framtíð gat enginn spáð þessum ótrúlega uppgangi hans á skömmum tíma.

Lét ljós sitt skína undir stjórn Hernan Crespo
Enzo átti alltaf að vera fótboltamaður. Pabbi hans elskar íþróttina og skýrði son sinn í höfuðið Enzo Francescoli sem er einn besti fótboltamaður í sögu Úrúgvæ.

Þegar Enzo Fernandez var fimm ára var hann þegar á mála hjá River Plate. Hann fór í gegnum yngri flokka félagsins og skrifaði undir sinn fyrsta atvinnumannasamning 2019, þegar hann var 18 ára gamall.

Hann var lánaður til Defensa y Justicia þar sem hann fékk reynslu í aðalliðsfótbolta undir stjórn Hernan Crespo, fyrrum leikmanns Chelsea. Eftir endurkomuna til River Plate lék hann aðeins 40 leiki áður en hann var seldur til Benfica síðasta sumar.

Á þessum tímapunkti hafi Enzo ekki spilað landsleik og fylgdist með heima þegar Lionel Messi og félagar unnu Copa America. Í september síðastliðnum lék Enzo svo fyrsta landsleikinn sinn en hann átti góða innkomu í 3-0 sigri gegn Hondúras í vináttulandsleik.

Frá byrjun var Enzo á skotskónum með Benfica og skoraði strax í fysta leik, gegn Midtjylland í undankeppni Meistaradeildarinnar.

Byrjaði á bekknum á HM
Enzo byrjaði á bekknum á HM, í 2-1 tapi gegn Sádi-Arabíu í fyrsta leik. En hann átti öfluga innkomu af bekknum og skoraði gegn Mexíkó í 2-0 sigri í næsta leik. Hans fyrsta landsliðsmark. Sú frammistaða gaf honum byrjunarliðssæti sem hann lét svo ekki af hendi á mótinu.

Argentína varð heimsmeistari í fyrsta sinn síðan 1986 og Enzo hefur verið að fagna nánast samfleytt síðan bikarinn fór á loft. Chelsea vonast til að fá ferskleika og sköpunarmátt á miðsvæðið með því að kaupa Enzo til félagsins.

Utan vallar er Enzo enn með æskuástinni en hann og Valentina Cervantes byrjuðu að hittast 2018 og eiga í dag unga stúlku saman.

Hann hefur aðeins spilað 14 leiki fyrir Benfica en allt stefnir í að hann reynist gullnáma fyrir félagið á ótrúlega skömmum tíma.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner