Joao Pedro í forgangi hjá Liverpool - Man Utd setur verðmiða á Rashford - Real Madrid missir vonina gagnvart Davies
   þri 03. október 2023 10:38
Innkastið
Óskar sagður fljúga til Noregs á mánudag - Efstur á óskalista KR
Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar á hliðarlínunni í Vesturbænum.
Óskar á hliðarlínunni í Vesturbænum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í Stúkunni á Stöð 2 Sport var sagt að Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks hefði tilkynnt leikmönnum sínum að hann væri á leið til Noregs til viðræðna við Haugesund næsta mánudag.

Breiðablik leikur Evrópuleik gegn Zorya Luhansk á fimmtudaginn og á svo leik gegn Stjörnunni í lokaumferð Bestu deildarinnar næsta sunnudag.

Óskar staðfesti það um helgina að hann hefði rætt við forráðamenn norska liðsins en Haugesund er í harðri fallbaráttu í norsku úrvalsdeildinni. Ef heimildir Stúkunnar eru réttar er spurning hvort Óskar gangi mögulega frá samningi við Haugesund í næstu viku.

Allar líkur á að Óskar sé á útleið frá Kópavoginum
Mikið er fjallað um framtíð Óskars en í Innkastinu hér á Fótbolta.net var sagt að Óskar sé efstur á óskalista KR-inga. Þjálfarabreytingar verða í Vesturbænum en ákveðið var að bjóða Rúnari Kristinssyni ekki nýjan samning.

„Maður heyrir að KR-ingar trúi því að það sé hreinlega möguleiki á því að fá hann (Óskar) til að taka við sínu gamla félagi," segir Elvar Geir í Innkastinu.

Í viðtali við Stöð 2 Sport beint eftir tap Breiðabliks gegn KR, þar sem Blikar voru að vinna eftir venjulegan leiktíma en KR skoraði tvisvar í uppbótartíma, talaði Óskar um að það hefði alltaf verið draumur sinn að þjálfa KR og hann væri KR-ingur.

„Ég veit að þetta fór í taugarnar á mörgum stuðningsmönnum Breiðabliks. Líka tímapunkturinn á þessu, þeir nýbúnir að tapa fyrir KR á þennan hátt," segir Elvar sem telur ljóst að Óskar verði allavega ekki þjálfari Blika á næsta ári.

„Með hverjum deginum, og miðað við það sem maður heyrir, þá virðast allar líkur á því að Óskar sé á útleið í Kópavoginum. Bara spurning hvort það verði eftir riðlakeppni Sambandsdeildarinnar eða jafnvel fyrr."

Baldvin Már Borgarsson segir í þættinum að ýmislegt þurfi væntanlega að breytast hjá KR svo Óskar sé tilbúinn að taka við liðinu á þessum tímapunkti.

„Maður heyrir sögusagnir um að nokkrir fjársterkir aðilar séu tilbúnir að koma til KR gegn því að Óskar verði ráðinn. Ég sé það einu leiðina fyrir Óskar að fara inn í KR í dag. Ég sé hann ekki geta tekið við KR á sínum forsendum. Hjá Breiðabliki hefur hann mikið fengið að versla leikmenn og leggja mikið púður fjárhagslega í liðið sitt. Til að hann geti spilað sinn fótbolta þá þarf líka að skipta um undirlag í Vesturbænum," segir Baldvin.

   30.09.2023 10:05
Tíu sem gætu tekið við KR af Rúnari

Innkastið - Vesturbæjarvonir og Vestradraumar
Athugasemdir
banner
banner