Fundað um Pochettino - Man City tryggir sér undrabarn - Arsenal ætlar að styrkja hópinn
banner
   fös 04. september 2020 10:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Sá fyrir mér byrjunarlið með Bale, Werner, Koulibaly, Kroos og Kane"
Stuðningsmaður Newcastle - Benedikt Bóas Hinriksson
Benedikt á vellinum 2014 með Ólafi Helga, stórkokki, og Daða Lange, mesta veiðimanni þessa lands. Óli bjó í Edinborg og það voru hæg heimatökin að komast á völlinn á þessum árum.
Benedikt á vellinum 2014 með Ólafi Helga, stórkokki, og Daða Lange, mesta veiðimanni þessa lands. Óli bjó í Edinborg og það voru hæg heimatökin að komast á völlinn á þessum árum.
Mynd: Úr einkasafni
'Svo þegar Shearer kom þá var ég geirnegldur. Þvílík ár sem maður átti í upphafi.'
'Svo þegar Shearer kom þá var ég geirnegldur. Þvílík ár sem maður átti í upphafi.'
Mynd: Getty Images
Mike Ashley, eigandi Newcastle, er mjög óvinsæll hjá stuðningsmönnum félagsins. Þeir höfðu gert sér vonir að losna við hann í sumar en það gekk ekki eftir.
Mike Ashley, eigandi Newcastle, er mjög óvinsæll hjá stuðningsmönnum félagsins. Þeir höfðu gert sér vonir að losna við hann í sumar en það gekk ekki eftir.
Mynd: Getty Images
Matty Longstaff fagnar marki gegn Manchester United á síðasta tímabili.
Matty Longstaff fagnar marki gegn Manchester United á síðasta tímabili.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net hitar vel upp fyrir nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni sem hefst 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í ensku úrvalsdeildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.

Newcastle er spáð 16. sætinu.

Fjölmiðlamaðurinn Benedikt Bóas Hinriksson heldur með Newcastle og svaraði hann nokkrum laufléttum spurningum.

Ég byrjaði að halda með Newcastle af því að... Ég prófaði að halda með Manchester United og Liverpool og Leeds eins og allir aðrir í minni sveit en ég tengdi lítið við þessi lið. Svo kom Newcastle allt í einu upp í þessa Premier League sem var verið að stofna og liðið spilaði eitthvað svo fallegan fótbolta. Ég bara heillaðist og valdi þá. Ruel Fox, Rob Lee og Barry Venison urðu mínir menn. Svo þegar Shearer kom þá var ég geirnegldur. Þvílík ár sem maður átti í upphafi.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil og hvernig líst þér á tímabilið sem framundan er? Ég skal viðurkenna að ég var ekkert spenntur fyrir síðasta tímabili enda með Steve Bruce við stjórnvölin, einhvern flippkisa með hárband í Saint-Maximin og framherja sem kann ekki að skora í Joelinton. En svo rættist ágætlega úr þessu og það var bara allt í góðu að horfa á þá rétt fyrir Covid lokunina. Ég horfði eiginlega ekkert á enska boltann eftir restartið þannig ég veit lítið um hvernig þetta endaði.

Tímabilið núna er voðalega svipað. Ég hafði draum um að billjónamæringarnir og spunameistararnir frá Sádí myndu koma inn og kaupa allan heiminn enda reglur UEFA um fjármál ekkert við lýði þetta sumarið. Sá fyrir mér byrjunarliðið með Gareth Bale, Timo Werner, Kúlíbalí, Toni Kroos og Harry Kane sem allir myndu fá milljón pund á viku. Cavani og Suarez og fleiri meistarar væru tilbúnir á bekknum. Þeir mættu fá tvær milljónir punda á viku. Það væri veisla í hverri viku og partýið í norðrinu væri slíkt að smokkarnir hans Asprilla myndu seljast upp. Pochettino væri að stýra liðinu og búningarnir yrðu þeir svölustu í heimi. Ó þvílíkur draumur.

En þess í stað erum við að kaupa leikmenn frá Burnley og Bornemouth þannig þetta er allt voðalega svipað eitthvað og ég er ekkert að pissa í mig úr spenningi.

Hefur þú farið út til Englands að sjá þitt lið spila? Heldur betur. Einu sinni lenti ég í mótmælum þar sem enginn söng neitt eða gerði neitt því eigandinn var eitthvað óþolandi og hafði breytt nafninu á barnum úr Shearer's pub í 'number nine pub'. Sparaði sér greiðslur í ímyndunarrétt til Alan Shearer. Það fór illa í heimamenn. Mig langar alls ekki til Bretlands þetta árið þannig ég bíð þetta tímabil af mér. Mæti ferskur næst.

Hvernig er að fara á St. James' Park? Sturlað þegar allir eru í stuði. Það er einstakt að vera þarna. Sungið og trallað allar 90 mínúturnar. Ekki bara í upphafi eins og víða annars staðar.

Uppáhalds leikmaðurinn í liðinu í dag? Það eru nú fáir sem gleðja augað aðrir en Allan Saint-Maximin, hinir eitursvölu Longstaff bræður og auðvitað Andy Carroll. Ofboðslega vona ég að Almiron geri eitthvað í vetur. Held mikið með honum. Hendi atkvæðinu til Paragvæ.

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við? Vá. Hvar á að byrja? Þeir eru nokkrir. Ég segi Joelinton. Framherji sem getur ekki skorað en kostar 40 milljónir punda gengur illa upp. Samt fíla ég hann alveg.

Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur? Longstaff bræðurnir. Sean er orðin þekkt stærð en Matty kemur sterkur inn í vetur. Það er einhver rómantík að hafa þessa tvo þarna.

Ef ég mætti velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja... Sadio Mane. Gæðablóð sem skorar mörk.

Ertu ánægður með knattspyrnustjórann? Hann er að vinna á. En ég vil helst ekki hafa hann lengi.

Einhver ein merkileg saga eða minning sem tengist þér og félaginu? Phillipe Albert vippan. Horfði á leikinn með fullt af sveitungum mínum heima hjá Óla kokk sem er með tattúverað Manchester United merkið á hendinni. Það var svolítið skemmtilegt. Ætli ég hafi ekki verið meira óþolandi en venjulega eftir þann leik og ég elskaði hverja sekúndu.

Það var mikið um sögur af eigendaskiptum í sumar. Hversu svekkjandi er að hafa Mike Ashely enn sem eiganda?
Úff. Þarna gæti ég skrifað ritgerð. En stutta svarið er hrikalegt. Í alla staði.

Með því að smella hérna má skoða Reddit-þráð um það hvers vegna Mike Ashley er hræðilegur eigandi, frá sjónarhorni stuðningsmanna Newcastle.

Í hvaða sæti mun Newcastle enda á tímabilinu? Við vorum í 13. sæti á síðasta tímabili. Vorum bestir af lélegustu liðunum. Vonandi komumst við í hóp næst lélegustu liðanna. Það væri gott skref að vera í kringum Everton, Southampton, Burnley og Arsenal.

Sjá einnig:
Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net búin að opna
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner