fös 04. desember 2020 08:30
Brynjar Ingi Erluson
Neymar um Maradona: Ég mun aldrei gleyma þessu
Neymar hitti Maradona á yngri árum og er hann þakklátur fyrir það
Neymar hitti Maradona á yngri árum og er hann þakklátur fyrir það
Mynd: Getty Images
Brasilíski leikmaðurinn Neymar mun aldrei gleyma því er hann hitti Diego Armando Maradona í fyrsta skiptið en hann minnist hans í viðtali við ESPN.

Maradona var einn besti knattspyrnumaður allra tíma. Hann spilaði með liðum á borð við Boca, Napoli og Barcelona og vann þá HM árið 1986 með Argentínu.

Hann lést á dögunum úr hjartaáfalli en hann var að jafna sig eftir heilaskurðsaðgerð.

Neymar er einn fjölmargra leikmanna sem minnast hans en Neymar er þakklátur að hafa þekkt hann.

„Ég hitti Maradona nokkrum sinnum en ég gleymi því aldrei þegar ég var 12 eða 13 ára gamall. Ég var að byrja með Santos og ég fór að horfa á góðgerðarleik milli fyrrum leikmanna Argentínu og Brasilíu."

„Rúta brasilíska liðsins var fullmönnuð og ég gat því ekki farið með þeim svo þeir settu mig í rútu með argentínsku leikmönnunum. Ég sá tvo leikmenn þarna í fremstu sætunum, það voru þeir Alejandro Mancuso og Maradona. Ég sat hjá þeim og þeir komu mjög vel fram við mig og þegar við mættum á völlinn þá fóru þeir með mig í klefann hjá argentínska liðinu og á völlinn."

„Ég á jafnvel mynd af mér með Maradona frá því ég var yngri. Hann kallaði á mig til að taka þessa mynd og ég mun aldrei gleyma þessu. Hann var goðsögn á vellinum og klárlega mín fyrirmynd en ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir honum sem íþróttamanni og knattspyrnumanni. Ég mun aldrei gleyma því,"
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner