
'Mín reynsla er að ég þarf nokkrar 90 mínútur áður en ég næ mínu besta formi og þess vegna er ég líka mjög ánægður að fá annað tækifæri til að sanna mig á Íslandi'

'Fann fyrir því að þjálfarinn vildi virkilega fá mig, og það er stór ástæða fyrir því að ég ákvað að snúa aftur til Íslands.'
Norski framherjinn Benjamin Stokke skrifaði á Gluggadeginum í síðustu viku undir samning við Aftureldingu og verður með liðinu út þetta tímabil.
Hans fyrsti leikur með liðinu verður líklega í kvöld þegar Afturelding tekur á móti Stjörnunni í 5. umferð Bestu deildinni.
Fótbolti.net ræddi við Stokke um endurkomuna til Íslands en hann var leikmaður Breiðabliks í fyrra.
Hans fyrsti leikur með liðinu verður líklega í kvöld þegar Afturelding tekur á móti Stjörnunni í 5. umferð Bestu deildinni.
Fótbolti.net ræddi við Stokke um endurkomuna til Íslands en hann var leikmaður Breiðabliks í fyrra.
Heyrði góða hluti um félagið
„Það er klárlega góð tilfinning að vera orðinn leikmaður Aftureldingar, ég hef bara heyrt góða hluti um félagið frá fyrrum liðsfélögum í Breiðabliki og ég ræddi einnig við Oliver (Sigurjónsson) um liðið og strákana í klefanum, og ég var mjög hrifinn af því sem ég heyrði," segir Stokke.
„Ég heyrði af áhuganum í gegnum vin minn. Ég var ekki með nein áform um að flytja í burtu að heiman, en ég fann fyrir því að þjálfarinn vildi virkilega fá mig, og það er stór ástæða fyrir því að ég ákvað að snúa aftur til Íslands."
„Miðað við það sem ég heyrði þá held ég að leikstíllinn henti mér vel. Ég vil spila fótbolti og ég hef tekið eftir eldmóðnum í félaginu og bæjarfélaginu, sérstaklega eftir að hafa farið upp í fyrra. Nokkrar af bestu upplifunum mínum á ferlinum hafa verið hjá félögum í svipaðri uppsveiflu. Svo ég er spenntur að vera hluti af þessari þróun."
Geta keppt við öll liðin
Er hugarfarið að koma inn hjá Aftureldingu annað en þegar þú komst inn hjá Breiðabliki í fyrra, inn í lið sem stefndi á titilinn?
„Mér finnst Afturelding heillandi lið. Ég held að hugsunarhátturinn, það að þróast, taka skref og vinna leiki, sé svipaður hjá öllum félögum, þó að það hafi verið klárt markmið að vinna deildina með Breiðabliki, þá held ég við getum komið á óvart, eins og liðið sýndi gegn Víkingi. Það var stór yfirlýsing og sönnun þess að við getum keppt við öll lið á þessu getustigi."
Þarf að spila til að geta sýnt hversu góður hann er
Stokke var spurður út í síðasta tímabil, hvernig horfir hann til baka?
Hann byrjaði átta leiki og kom inn í fimmtán þegar Breiðablik varð Íslandsmeistari. Á 765 mínútum (samkvæmt Transfermarkt) skoraði hann fjögur mörk og lagði upp tvö. Mínútunum fór fækkandi þegar leið á tímabilið en þá var Ísak Snær Þorvaldsson alltaf að finna fjölina sína betur og betur og var algjör lykilmaður í velgengni Breiðabliks.
„Síðasta tímabil var mjög spennandi, ég elska ferlið og og að ná að vinna deildina með strákunum var mjög ánægjulegt. Liðið byrjaði ekki vel, en eftir smá uppgjör þá fundum við taktinn og náðum að vinna nokkra jafna leiki."
„Ísak er góður leikmaður, og mjög góður gaur. Mér fannst við ná nokkuð vel saman innan sem utan vallar, og hann hjálpaði liðinu mjög mikið með sínu framlagi, sem varð til þess að við gátum unnið deildina."
„Að því sögðu þá finnst mér ég ekki hafa fengið nægilega mikið af mínútum til að ná raunverulega að sýna mína hæfileika og komast í eins gott form og ég get verið í. Mín reynsla er að ég þarf nokkrar 90 mínútur áður en ég næ mínu besta formi og þess vegna er ég líka mjög ánægður að fá annað tækifæri til að sanna mig á Íslandi."
Hann er 34 ára og sýndi tímabilið 2023, þegar hann varð markakóngur í norsku B-deildinni, að hann kann þá list að skora mörk.
Kúltúrinn og hugarfarið lykillinn að titlinum
Hver var stærsti lykillinn að því að Breiðablik varð meistari í fyrra?
„Við vorum með mjög marga gæðaleikmenn, örugglega besta hópinn í deildinni, og það var líka mjög góður kúltúr í klefanum. Markmiðið var skýrt og ég held að allir ýttu hvorum öðrum í átt að sama markmiðinu. Hugarfarið og fjölskyldu kúltúrinn í félaginu var mjög góður grunnur að árangri."
Endaði að lokum aftur á Íslandi
Það heyrðist af því í vetur að íslensk félög hefðu kannað hvort hægt væri að fá Stokke til að koma aftur til Íslands fyrir 2025 en það gerðist ekki fyrr en á Gluggadeginum. Hvernig var veturinn hjá Norðmanninum?
„Ég hugsaði mig um þegar kom að lokum síðasta tímabils. Við áttum von á strák í heiminn og ég var mjög ákafur að vera heima með fjölskyldunni og veita stöðugleika á fyrsta kaflanum. Á þeim kafla var ég í raun ekki opinn fyrir því að spila áfram á Íslandi."
„Með því að hafa passað að allt myndi þróast vel, þá urðum við meira og meira opin fyrir því að flytja erlendis sem fjölskylda. Eiginkona mín er í fæðingarorlofi og elsti sonur minn er ekki byrjaður í skóla, svo við ályktuðum að við værum frekar sveigjanleg eftir allt saman."
„Þau koma með mér, það var mikilvægt fyrir okkur. Við hugsuðum að það væri gaman að (eldri) sonur okkar gæti átt einhverjar minningar frá Íslandi, hann elskaði að vera hérna á síðasta tímabili og er núna kominn á þann aldur að hann gæti munað meira eftir þessum tíma í framtíðinni."
„Þetta er spennandi ævintýri fyrir okkur og við erum þakklát að fá tækifæri til að upplifa góð augnablik með Aftureldingu," sagði framherjinn að lokum.
Leikur Aftureldingar og Stjörnunnar hefst klukkan 19:15 og fer fram á Malbikstöðinni að Varmá í Mosfellsbæ.
Athugasemdir