Klukkan 19:15 í kvöld mætast Breiðablik og KR á Kópavogsvelli. Fótbolti.net tók ítarlegt viðtal við Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara - og yfirmann fótboltamála hjá KR, í aðdraganda leiksins.
Í þessum síðasta hluta viðtalsins var hann spurður út í unga leikmenn liðsins, ekki alveg þá yngstu; Alexander Rafn Pálmason og Sigurð Breka Kárason, sem eru þessa stundina með U16 landsliðinu og verða ekki með í kvöld, heldur U21 landsliðsmennina og sérstaklega Fjölnisstrákana tvo, þá Halldór Snæ Georgsson og Júlíus Mar Júlíusson.
Í þessum síðasta hluta viðtalsins var hann spurður út í unga leikmenn liðsins, ekki alveg þá yngstu; Alexander Rafn Pálmason og Sigurð Breka Kárason, sem eru þessa stundina með U16 landsliðinu og verða ekki með í kvöld, heldur U21 landsliðsmennina og sérstaklega Fjölnisstrákana tvo, þá Halldór Snæ Georgsson og Júlíus Mar Júlíusson.
Þrír saman aftast og einn fyrir framan
Í KR liðinu gegn FH voru þrír U21 landsliðsmenn aftast; Halldór Snær Georgsson í markinu og þeir Júlíus Mar Júlíusson og Birgir Steinn Styrmisson í miðvörðunum. Þar fyrir framan var svo Jóhannes Kristinn Bjarnason á miðjunni.
Hversu góðir eru þessir gaurar í dag?
„Þessir gaurar eru mjög vaxandi allir. Þakið á þeim er mjög hátt og þeir eiga mjög mikið inni ef að hugarfarið þeirra er rétt, og ef við og þeir halda rétt á spilunum. Ég er sannfærður um það."
Eiga óttaleysið sameiginlegt
Óskar gaf sem þjálfari Gróttu landsliðsmarkmanninum Hákoni Rafni Valdimarssyni stórt tækifæri þegar hann gerði hann að aðalmarkmanni Gróttu árið 2018, þegar Hákon var á 17. aldursári.
Sérðu líkingu með Dóra (Halldóri Snæ) í dag og hvernig Hákon var á sínum tíma í Gróttu?
„Ég sé líkingu í hugarfarinu. Þeir eru ekki líkir sem markmenn. Hákon er töluvert hærri og kom auðvitað ennþá yngri inn í þetta en Dóri gerir núna, en ekki á næstum jafn stóru sviði. Ég sé aðallega líkindi í því að þeir eru báðir algjörlega óttalausir og eru mjög fljótir að hrista af sér mistök; dvelja ekki við mistökin sem er frábær eiginleika að hafa. Þeir eru sterkir andlega og þar eru mestu líkindi."
„Það er held ég mikilvægasti eiginleiki sem markmaður þarf að hafa, að vera óttalaus. Mistökin sem markmenn gera eru yfirleitt stór og áberandi og þau kosta stundum meira. Það er því þeim mun mikilvægari að þessir leikmenn séu með það hugarfar að vera teflonhúðaðir fyrir því að gera mistök, átta sig á því að það þýðir ekki að dvelja við klaufalegt mark eða lélega sendingu því næsta varsla eða næsta sending bíður bara handan við hornið. Þeir eru báðir frábærir í því."
„Ég hef oft verið stoltur af Hákoni Rafni, en sjaldan verið eins stoltur og af því hvernig hann höndlaði mistökin á móti Tyrkjum á Laugardalsvelli í fyrra. Ég var stoltari af honum fyrir það heldur en kannski fyrir einhverja frábæra vörslu eða þess háttar því sterkur haus er það eina sem heldur mönnum á lífi í þessum leik okkar."
Fyrirliði í sínum fyrsta leik í efstu deild
Á móti FH í 3. umferð spilaði Júlíus sinn fyrsta leik í efstu deild á ferlinum og var með fyrirliðabandið. Hvernig kom það til?
„Hann er varafyrirliði á eftir Aroni (Sigurðarsyni), þegar Aron er ekki með þá er Júlli fyrirliði, ekki flóknara en það."
„Júlíus er þannig leikmaður að þú finnur fyrir því þegar hann er ekki á æfingum og þú finnur fyrir því þegar hann er á æfingum. Hann er með sterka nærveru, gríðarlega öflugur karakter og með rosalega jákvæða sýn á lífið. Hann er frábær varafyrirliði og frábær í að leysa þetta verkefni þegar Aron er fjarri. Þetta var ekki erfitt val."
„En svo eru auðvitað nokkrir sem þurfa ekkert fyrirliðaband til að vera leiðtogar í þessu liði: Aron Þórður, Gabríel Hrannar og ég gæti nefnt fleiri. Þeir þurfa ekkert band," sagði Óskar.
Athugasemdir