Hollenski þjálfarinn Frank de Boer er búinn að finna sér nýtt starf eftir tveggja ára frí. Hann er tekinn við Al Jazira í Abu Dhabi, höfuðborg Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
Það verður áhugavert að fylgjast með gengi hans þar, en þjálfarar á borð við Leonardo Jardim og Sergiy Rebrov eru við störf í deildinni. Milos Milojevic, fyrrum þjálfari Víkings R. og Breiðabliks, er einnig nýtekinn til starfa í deildinni eins og greint var frá í dag.
De Boer tekur við af samlanda sínum Marcel Keizer, sem þjálfaði meðal annars Sporting CP og Ajax áður en hann var ráðinn til Al Jazira.
De Boer stýrði síðast hollenska landsliðinu og var einn af óvinsælustu þjálfurum landsliðssögunnar.
Hann átti einnig gríðarlega erfitt uppdráttar á dvöl sinni hjá Inter á Ítalíu og Crystal Palace á Englandi, þar sem hann var rekinn eftir stuttan tíma við stjórn á báðum stöðum. Þar áður hafði hann stýrt Ajax í sex ár.
Það er nokkuð um öfluga fótboltamenn í efstu deild í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þar má finna menn á borð við Paco Alcacer, Allan og Miralem Pjanic.
Sjá einnig:
Milos tekur við stjórn Al Wasl (Staðfest)