Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
banner
   mán 05. júní 2023 22:00
Ívan Guðjón Baldursson
Mjólkurbikarinn: Breiðablik lagði FH í uppbótartíma
Mynd: Fótbolti.net
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Breiðablik 3 - 1 FH
0-1 Úlfur Ágúst Björnsson ('11)
1-1 Klæmint Andrasson Olsen ('69)
2-1 Davíð Ingvarsson ('92)
3-1 Klæmint Andrasson Olsen ('100)
Rautt spjald: Eggert Gunnþór Jónsson, FH ('96)


Lestu um leikinn: Breiðablik 3 -  1 FH

Breiðablik og FH áttust við í öðrum leik kvöldsins í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars karla og úr varð hörkuslagur. Höskuldur Gunnlaugsson átti skot í stöng á þriðju mínútu en það voru FH-ingar sem tóku forystuna.

Úlfur Ágúst Björnsson kom boltanum í netið eftir fyrirgjöf frá Kjartani Kára Halldórssyni. Samskiptaörðugleikar á milli Damir Muminovic í miðverði og Antoni Ara Einarssyni markverði gerðu það að verkum að Úlfur Ágúst skoraði auðvelt mark þökk sé góðu hlaupi.

Restin af hálfleiknum var frekar bragðdauf þar sem liðin fengu bæði sín hálffæri. Jason Daði Svanþórsson fór meiddur af velli eftir 32 mínútur, en hann hefur verið að glíma við meiðslavandræði að undanförnu og kvartaði undan lærinu.

Klæmint Olsen komst nálægt því að jafna fyrir Blika þegar hann klúðraði dauðafæri í upphafi síðari hálfleiks en bætti upp fyrir mistökin með jöfnunarmarki á 69. mínútu. Klæmint skoraði þá eftir þunga sókn Blika sem endaði á góðri fyrirgjöf frá Ágústi Eðvaldi Hlynssyni sem rataði beint á Klæmint.

Blikar héldu áfram að sækja eftir jöfnunarmarkið en FH-ingar minntu á sig þegar Kjartan Henry Finnbogason vippaði boltanum rétt yfir markið. 

Sóknarþungi Blika jókst og átti Sindri Kristinn Ólafsson frábæra vörslu á 90. mínútu, en honum tókst ekki að stöðva Davíð Ingvarsson sem gerði sigurmark heimamanna í uppbótartíma.

Það ætlaði allt að sjóða uppúr undir lok uppbótartímans og fékk Eggert Gunnþór Jónsson að líta beint rautt spjald fyrir ljóta tæklingu á Viktori Karli Einarssyni sem var að senda Blika fram í skyndisókn.

Uppbótartíminn virtist engan endi ætla að taka en Blikar nýttu sér liðsmuninn til að gulltryggja sigurinn með marki á lokasekúndunni. Aftur var Klæmint á ferðinni, í þetta skiptið fylgdi hann skoti Gísla Eyjólfssonar eftir með marki en Gísli gerði frábærlega að leika á varnarlínu Hafnfirðinga.

Niðurstaðan 3-1 sigur Blika sem eru annað liðið til að tryggja sér þátttökurétt í undanúrslitum Mjólkurbikarsins 2023 eftir Víkingi R.


Athugasemdir
banner