þri 05. júlí 2022 14:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Ef leikmaður eins og hann býðst ber okkur auðvitað skylda til að hugsa um þann möguleika"
Viðar Örn
Viðar Örn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árni Vill og Sara Björk
Árni Vill og Sara Björk
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net ræddi við Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara Breiðabliks, í dag og var hann spurður út í leikmannahópinn. Hann kom inn á að Blikar myndu líta í kringum sig í leit að mögulegri styrkingu.

Sjá einnig:
Óskar Hrafn: Það vinnur allavega ekki á móti okkur

„Við ætlum að vinna með það sem við höfum, svo auðvitað skoðum við í kringum okkur og sjáum hvort það sé einhver sem getur styrkt liðið. Það verða að vera leikmenn sem styrkja okkur," sagði Óskar.

Líklegast að Árni spili áfram erlendis
Árni Vilhjálmsson lék með Blikum síðasta sumar en gekk svo í raðir Rodez í Frakklandi í janúar. Hafa Blikar rætt við hann?

„Nei, við höfum ekki tekið samtalið við hann. Hann kom og æfði með okkur um daginn. Staðan hans er þannig að konan hans er búin að skrifa undir samning við Juventus á Ítalíu og hann er að sinna föðurhlutverkinu þessa dagana á meðan Sara [Björk Gunnarsdóttir] er upptekin við að spila eitt stykki Evrópukeppni. Það hefur ekkert verið rætt hvað hann ætlar að gera."

„Ég held að hugur hans leiti í að vera sem næst fjölskyldunni, eðlilega, vera sem næst konu og barni. Ég veit að það reyndi á þegar hann var 400km frá þeim seinni hluta tímabilsins núna í Frakklandi. Þá geturu ekki hitt ástvini þína reglulega."

„Ef til kemur þá er Árni auðvitað frábær leikmaður en ég met það þannig að hans fyrsti, annar og þriðji kostur sé að vera nálægt fjölskyldunni."


Einhverjar þreifingar
Það hefur síðustu daga aðeins verið slúðrað um áhuga Breiðabliks á Viðari Erni Kjartanssyni. Hefur samtalið við hann verið tekið?

„Það hafa verið einhverjar þreifingar en Breiðablik hefur aldrei talað beint við Viðar né Vålerenga. Ég held að hann sé líka að horfa á útlönd."

„Auðvitað ber okkur skylda til - ef leikmaður eins og hann býðst - að hugsa um þann möguleika,"
sagði Óskar við Fótbolta.net í dag.

Sjá einnig:
„Vil ekki hugsa út í það ef Viðar fer í Breiðablik"
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner