Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mán 05. september 2022 08:46
Elvar Geir Magnússon
Viðurkenna stór mistök í dómgæslu helgarinnar
David Moyes lætur Andy Madley dómara heyra það.
David Moyes lætur Andy Madley dómara heyra það.
Mynd: Getty Images
Enska dómarasambandið hefur viðurkennt að umdeildar ákvarðanir sem teknar voru gegnum VAR og bitnuðu á West Ham og Newcastle um helgina voru rangar. Sambandið segir að í samvinnu við ensku úrvalsdeildina verði atvikin skoðuð ítarlega og reynt að fyrirbyggja það að svona mistök endurtaki sig.

West Ham og Newcastle skoruðu mörk, gegn Chelsea og Crystal Palace, og aðaldómararnir í leikjunum dæmdu lögleg mörk. En í báðum tilfellum voru mörkin ranglega tekin til baka eftir að dómararnir voru sendir í VAR skjáinn.

West Ham skoraði jöfnunarmark gegn Chelsea á 90. mínútu sem hefði átt að standa en Jarrod Bowen var svo talinn hafa brotið á markverðinum Edouard Mendy í aðdragandanum. Það sauð á David Moyes, stjóra West Ham, sem talaði um skandal.

Í markalausu jafntefli Newcastle gegn Crystal Palace þá skoraði Tyrick Mitchell, varnarmaður Palace, sjálfsmark sem var tekið af þar sem Joe Willock var talinn hafa brotið á markverðinum. Í raun var Willock ýtt af Mitchell.

Dómgæslan var mikið í sviðsljósinu um helgina. Michael Oliver hafnaði því að fara í VAR skjáinn í leik Nottingham Forest og Bournemouth og skoða ákvörðun sína um að dæma víti. Þá fékk Jesse Marsch, stjóri Leeds, rauða spjaldið fyrir mótmæli í tapleik gegn Brentford.
Athugasemdir
banner
banner