Man Utd gæti misst Fernandes - Napoli vill Mainoo - Barcelona og Liverpool berjast um Upamecano
   sun 05. október 2025 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Tudor mætir Modric: Vonandi verður hann ömurlegur
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Igor Tudor þjálfari Juventus svaraði spurningum á fréttamannafundi í gær, fyrir stórleik liðsins á heimavelli gegn AC Milan í toppbaráttunni.

Tudor er króatískur og lék á tíma sínum sem leikmaður 55 A-landsleiki fyrir þjóð sína. Nokkra þeirra spilaði hann með Luka Modric, sem lék sinn fyrsta landsleik á sama ári og Tudor lagði landsliðsskóna á hilluna.

Modric verður væntanlega á sínum stað í byrjunarliði Milan í kvöld þrátt fyrir að vera orðinn 40 ára gamall.

„Ég lék með Modric í króatíska landsliðinu, hann er goðsögn. Enginn hefur afrekað neitt í líkingu við hann í sögu þjóðarinnar. Hann er 40 ára gamall og spilar á hæsta gæðastigi, ég er mjög stoltur af honum. Vonandi verður hann ömurlegur gegn okkur," sagði Tudor og hló.

Juve er búið að gera fjögur jafntefli í röð í öllum keppnum, eftir að hafa unnið fyrstu þrjá leiki tímabilsins.

„Við spiluðum frábæra leiki gegn Atalanta og Villarreal þar sem við áttum skilið að fara með sigur af hólmi. Ég tók eftir miklum bætingum hjá liðinu yfir þessa tvo leiki. Það kom mér smá á óvart hversu vinnusamir og grimmir strákarnir voru."

Modric hefur byrjað alla deildarleiki Milan á tímabilinu og er kominn með mark og stoðsendingu eftir fimm umferðir.
Athugasemdir
banner